Erinhugur ríkir um það innan ríkisstjórnarinnar að sækja um lán til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem allra fyrst. Forysta Samfylkingarinnar sagði í gær að flokkurinn hefði lagt þunga áherslu á að ríkisstjórnin leitaði aðstoðar sjóðsins. Þá eru sjálfstæðismenn sama sinnis samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Aðeins á eftir að fara yfir þær forsendur sem sjóðurinn gefur sér sem og þau skilyrði sem hann setur fyrir láninu og eru sérfræðingar ríkisstjórnarinnar að fara yfir þau með henni. Stíf fundahöld voru um málið innan ríkisstjórnarinnar í gær. Búist hafði verið við að ákvörðun yrði tekin um helgina en eitthvað varð til þess að tefja málið.
Samið um skilyrðin
Heimildamenn Morgunblaðsins segja að verið sé að semja við fulltrúa sjóðsins um skilyrði hans fyrir láni, en Geir sagði í gær af og frá að sjóðurinn setti ríkisstjórninni einhverja afarkosti. Í samtali við Ríkisútvarpið í gærkvöldi sagði Geir ákvörðunina ekki einfalda og að ekki væri um neyðaraðstoð að ræða heldur fremur „samstarf um efnahagsaðstoð sem grípa þurfi til“.