Ekkert liggur fyrir um aðstoð IMF

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að ekkert liggi fyrir um aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, IMF. Frétt Financial Times í dag um að Ísland muni óska eftir 6 milljarða evra láni frá sjóðnum í samstarfi við hin Norðurlöndin og Japan, sé byggð á getgátum. Íslendingar hafa haft samband við sænska seðlabankann um að draga á gjaldeyrisskiptasamning, sem gerður var í vor.

Geir sagði við Útvarpið, að ekkert lægi fyrir um skilyrði sjóðsins og ríkisstjórnin hafi ekki tekið ákvörðun um hvort beðið verði um aðstoð hans. Þá sé ekki hægt að nefna neinar upphæðir því stjórn sjóðsins þurfi að ákvæða þær.

Hann bætti við að viðræður stjórnvalda og sjóðsins gangi ágætlega og nú sé beðið eftir lokaplaggi frá sjóðnum. Eftir það geti ríkisstjórnin tekið ákvörðun á grundvelli plaggsins.

Fram kemur í frétt Reutersfréttastofunnar nú síðdegis, að íslensk stjórnvöld hafi haft samband við sænska seðlabankann um að draga á gjaldeyrisskiptasamning, sem íslenski og sænski seðlabankinn gerðu með sér í vor.

Samskonar samningar voru gerðir milli íslenska seðlabankans og þess danska og norska og nýlega dró íslenski bankinn 200 milljónir evra á hvorn samning.

Reuter hefur eftir  Brittu von Schoultz, talsmanni sænska seðlabankans, að Ísland hafi haft samband á síðustu dögum en sænski bankinn vilji halda að sér höndum þar sem viðræður standi yfir við IMF. „Við teljum best fyrir okkur að bíða og sjá til," segir hún.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka