Engan sakaði þegar eldur kom upp í gærkvöldi í frystitogaranum Lynx sem Ocean Choice International frá Nýfundnalandi gerir út en það er að þriðjungshluta í eigu Vísis hf. í Grindavík, samkvæmt skip.is.
Í fréttum frá Nýfundnalandi segir að tekist hafi að ná tökum á eldinum. Björgunarþyrla hafi verið kölluð út og tveir togarar í nágrenni við Lynx, Acadian Gale og Mersey Phoenix, aðstoðuðu við björgunina. Lynx var að veiðum í hafinu milli Kanada og Grænlands þegar eldurinn kom upp á millidekki.
Tuttugu og sjö áhafnarmeðlimir voru á Lynx þegar eldur kom upp, samkvæmt fréttum fjölmiðla á Nýfundnalandi. Fimm þeirra voru hífðir upp í þyrlu með væga reykeitrun og fluttir í land til aðhlynningar.