Efnamóttakan í Gufunesi hefur auglýst reglulega uppá síðkastið að hún taki að sér að eyða trúnaðargögnum. Margir hrökkva í kút enda hljómar þetta milli síbylju um kreppu, bankahrun og hver beri ábyrgðina á þessu öllu saman. Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins spurði sig að því í þinginu um daginn hvort í bankakerfinu væru menn að störfum við pappírstætarana. MBL Sjónvarp fór í heimsókn í Efnamótttökuna sem vildi ekki kannast við að óvanalega mikil traffík hefði verið þar undanfarið.
Algerum trúnaði er heitið og hægt er að fylgja gögnum eftir gegnum eyðinguna til að fullvissa sig. Og trúnaðargögnin fara öll í endurvinnslu og eiga sér framhaldslíf. Leyndarmál þjóðarinnar og sönnunargögn um þá sem bera ábyrgð á bankahruni og kreppu getur verið að finna á klósettrúllunni án þess að neinn verði þess var.