Fær bætur fyrir of langt varðhald

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands.

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða karlmanni 100 þúsund krónur í miskabætur vegna þess að talið var að honum hafi verið haldið óþarflega lengi í varðhaldi. Ríkið var hins vegar sýknað af bótakröfu mannsins vegna handtöku þar sem talið var að hún hefði verið réttmæt.

Málið hófst með því að sonur mannsins var stöðvaður að morgni dags í mars 2005 þar sem hann ók bíl eftir Skeiða- og Hrunamannavegi í Árnessýslu á ólöglegum hraða og án þess að hafa ökuréttindi. Með honum í bílnum var  Pólverji. Í yfirherslum yfir mönnunum tveimur kom fram, að tveir aðrir Pólverjar dveldu á heimili mannsins.   Fór lögregla þangað og handtók Pólverjana.

Maðurinn kom síðan á lögreglustöðina á Selfossi að eigin frumkvæði um hádegisbil sama dag. Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi verið æstur og hann var á endanum handtekinn og vistaður í fangaklefa klukkan 13:27.

Hann var síðan tekinn til yfirheyrslu klukkan 15:05, grunaður um brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga en Pólverjarnir þrír voru ekki með tilskilin atvinnuréttindi hér. Yfirheyrslunni lauk kl. 16:35 og þá var maðurinn aftur vistaður í fangaklefa. Hann var tekinn aftur til yfirheyrslu klukkan 20:02.  Skýrslutökunni lauk kl. 20:45 og manninum var sleppt kl. 20:50.

Maðurinn var síðar sýknaður af ákæru fyrir umrætt brot gegn atvinnuréttindum útlendinga þar sem ekki þótti sannað að Pólverjarnir hefðu verið í vinnu hjá honum.  Hann höfðaði síðan bótamál og krafðist 1 milljónar króna í bætur fyrir ólöglega handtöku og gæslu lögreglu.

Héraðsdómur Suðurlands taldi að fullkomlega hefði verið réttmætt að handtaka  manninn til að tryggja návist hans og að koma í veg fyrir að hann gæti spillt sakargögnum. Hins vegar verði að telja, að það hafi verið óþarft að hafa manninn í haldi eftir að fyrri skýrslutökunni lauk kl. 16:35.  Hann hafi því verið í haldi að óþörfu í 4 klukkustundir og 15 mínútur og fær bætur fyrir það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert