Ferðamálastofa hyggst beita sér af krafti í að halda á lofti jákvæðri umfjöllun um Ísland í erlendum fjölmiðlum. Meðal annars með blaðamannaferðum til Íslands og almannatengslastarfi.
Segir í tilkynningu að óþarfi sé að fjölyrða um það erfiða ástand sem skapast hefur í þjóðfélaginu síðustu daga og vikur í kjölfar hruns á fjármála- og gjaldeyrismörkuðum. Frá því að þessi staða kom upp hefur á vegum Ferðamálastofu innanlands og utan verið unnið að ýmsum aðgerðum til að fjölga ferðamönnum og auka þar með innstreymi gjaldeyris.
Ferðamálastofa kynnti nýlega hugmyndir sínar um skipulegra samstarf vegna blaðamannaferða við markaðsstofur og svæðisbundin samtök ferðaþjónustuaðila. Þegar er farið að vinna eftir þeim hugmyndum m.a. á Austurlandi, þaðan sem nýverið kom beiðni um að Ferðamálastofa stæði fyrir því að bjóða blaðamönnum á svæðið í tengslum við þá vetrardagskrá sem þar mun eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum.
Ferðamálastofa fundaði nýverið með Höfuðborgarstofu vegna þess ástands sem komið hefur upp í íslensku efnahagslífi. Á þeim fundi var fólk sammála um nauðsyn þess að hrinda af stað öflugri hvatningu til ferðalaga á okkar helstu mörkuðum og var ákveðið að taka höndum saman um að bjóða til blaðamannaferða og biðla til sérhópa af ýmsu tagi, en einnig var rætt um möguleika á því m.a. að kynna Reykjavíkurborg og Íslands sem fjölskylduvænan áfangastað.
Skrifstofur Ferðamálastofu erlendis hafa lagt þunga áherslu á það undanfarið að koma jákvæðri umfjöllun inn í fjölmiðla og mun verða lögð enn ríkari áhersla á það á næstum vikum og mánuðum.
„Meðal viðburða sem framundan eru má nefna að í vikunni verður opnuð sýningin „A slice of Iceland“ í London þar sem áherslan verður á ferðaþjónustu, íslenska tónlist, mat ofl. Þá styttist í stærstu ferðasýningu í heimi, World Travel Market í London, en fullbókað er á sýninguna. Þann 20. nóvember verða Ferðamálastofa, Ráðstefnuskrifstofa Íslands og Iceland Naturally með viðburð þar sem ráðstefnulandið Ísland verður kynnt. Unnið er að því þessa dagana að bjóða þangað fagskipuleggjendum," að því er segir í frétt frá Ferðamálastofu.