Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað fjóra karlmenn í gæsluvarðhald til miðvikudags vegna fólskulegrar árásar á tvo lögregluþjóna aðfararnótt sunnudags. Tveggja manna er enn leitað.
Átta karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir í kjölfar árásarinar og hefur fjórum verið sleppt.
Lögreglumennirnir sem ráðist var á voru kallaðir að húsi í Hraunbænum í Árbæ um eitt leytið aðfararnótt sunnudags vegna hávaða. Bað lögreglan fólkið í íbúðinni að draga úr látum og var að fara þegar hópur manna réðist á hana með spörkum og höggum.
Lögreglumennirnir hlutu ekki alvarlega áverka en eru bláir og marðir eftir átökin. Þá varð að sauma fjögur spor í höfuð annars þeirra.