Íslenski háfjallaleiðangurinn á Shivling fjalli í Himalajafjallgarðinum snéri við um helgina eftir að hafa komist langleiðina upp á tind fjallsins. Veður hamlaði för og er hópurinn á heimleið.
Fjallið er 6.543 metra hátt og komst hópurinn í 6.120 metra hæð. Var horft til þess að komast yfir ísfall í næsta áfanga upp fjallið en það reyndist ófært og var því snúið við.
Í leiðangrinum eru fimm Akureyringar og var þetta í fyrsta sinn sem íslenskur leiðangur freistar uppgöngu á fjallið, sem þykir eftirsóknarvert takmark bestu fjallgöngumanna heims.