Langtímahagsmunir verði hafðir í huga varðandi auðlindir landsins

Aðalfundur Félags umhverfisfræðinga á Íslandi  lýsir áhyggjum vegna umræðu um að draga eigi úr kröfum er lúta að auðlindanýtingu og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Félagið hvetur til þess að hugað verði að langtímahagsmunum okkar og komandi kynslóða þegar kemur að ákvarðanatöku sem varðar náttúru okkar, umhverfi og auðlindir.


Þetta kemur fram í ályktun frá félaginu.

„Til að renna sterkari stoðum undir efnahagslíf á Íslandi í kjölfar þeirrar fjármálakreppu sem hér ríkir, hafa heyrst raddir um að auka skuli og hraða ásókn í helstu náttúruauðlindir okkar, óháð faglegu mati og leiðbeiningum vísindamanna. Slíkt getur leitt til alvarlegra og jafnvel óafturkræfra áhrifa á náttúruauðlindir okkar og þar með stefnt í hættu nýtingarmöguleikum okkar til framtíðar, auk þess að skaða ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.

Til lengri og skemmri tíma litið má ekki draga úr kröfum, enda getur slíkt stangast á við lög og alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga. Mikilvægt er að inn í framtíðarsýn okkar fléttist hugmyndafræði um sjálfbæra nýtingu og þróun samfélagsins, þannig að saman fari umhverfisvernd, félagsleg þróun og efnahagslegur vöxtur. Ekki má skerða rétt komandi kynslóða til að njóta þeirra auðlinda, náttúrulegra og menningarlegra, sem velmegun okkar hefur grundvallast á hingað til," að því er segir í ályktun frá Félags umhverfisfræðinga á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert