Gunnar Þorláksson, annar eigenda Byggingarfélags Gunnars og Gylfa (BYGG), segist telja atvinnuhorfur næsta árið mun verri en könnun Samtaka atvinnulífsins (SA) gerir ráð. „Þetta er afar varfærið svo ekki sé meira sagt,“ segir Gunnar en samkvæmt könnuninni munu um 7.000 manns missa vinnuna á árinu miðað við tölur um síðustu áramót.
BYGG hefur verið umsvifamikið í uppbyggingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum. Félagið hefur byggt meira en 200 íbúðir á ári um nokkurra ára skeið. „Staðan er miklu verri á atvinnumarkaðnum en af er látið. Það er mikið atinnuleysi framundan og það eins gott að öll þjóðin, stjórnmálamenn og aðrir, búi sig undir erfiða tíma. Að öðrum kosti dynja áföllin á okkur nánast fyrirvaralaust eins og dæmin sanna með bankanna,“ segir Gunnar og vitnar til yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Glitni, Landsbankanum og Kaupþingi. „Núna er komin upp staða sem er grafalvarleg á öllum vígstöðum og það sem skiptir máli er að fólki sé gerð grein fyrir því að hér sé framundan mikið atvinnuleysi. En svona ástandi fylgja auðvitað líka tækifæri sem eiga eftir að koma í ljós þegar fólk þarf að fara finna lausnir á stórum vandamálum. Þannig er það alltaf og þannig verður það núna. En aðalatriðið er að fólk sé upplýst um að efnahagsástandið hér er grafalvarlegt, alvarlegra en stjórnmálamenn hafa sagt hingað til, og það er engum til góðs að halda upplýsingum um stöðuna frá fólki,“ segir Gunnar.
Eins og greint hefur verið frá á mbl.is telja aðildarfyrirtæki SA að erfiður tími geti verið framundan í atvinnumálum. Tæplega helmingur fyrirtækja sem tók þátt í könnun á vegum SA á dögunum hefur fækkað fólki á árinu eða ætlar að gera það.
Fjórðungur fyrirtækja, sem hyggst segja upp fólki, ætlar að segja upp ófaglærðu starfsfólki, um fimmtán prósent fyrirtækja ætla að segja upp iðnaðarmönnum og sjö prósent háskólamenntuðu fólki.