Stærsti samningur Jarðborana erlendis

Gufuaflstöð á São Miguel, stærstu eyjunni í Azoreyjaklasanum.
Gufuaflstöð á São Miguel, stærstu eyjunni í Azoreyjaklasanum.

Jarðboranir hafa samið um borun háhitahola fyrir portúgalska ríkið á Azoreyjum. Samningurinn hljóðar upp á einn og hálfan milljarð króna. Boranir eiga að hefjast 9. janúar næstkomandi. Ætlunin er að bora 10 til 14 holur og gæti verkefnið tekið rúmt ár.

Gengið var til samninga um verkið við Jarðboranir eftir að þær urðu hlutskarpastar í alþjóðlegu útboði á framkvæmdinni.

„Þetta er stærsti samningur sem við höfum gert vegna verkefna erlendis. Og ekki veitir af í árferði eins og núna ríkir að afla gjaldeyris. Það hafa mörg fyrirtæki reynt fyrir sér þarna úti með misjöfnum árangri. Við byrjuðum að vinna þarna árið 1992 og hefur líkað vel. Við þekkjum aðstæður mjög vel og þeir þekkja okkur," segir Ari Stefánsson, framkvæmdastjóri Jarðborana.

Fyrsta verkefni Jarðborana á Azoreyjum var borun eftir drykkjarvatni á eyjunni Terceira. Síðan hafa Jarðboranir tekið að sér tvö stór borverkefni á háhitasvæðum Azoreyja, auk smærri verkefna á undanförnum árum. Þriðja stóra verkefni Jötuns verður svo borun 10 til 14 háhitahola á 2 eyjum Azoreyja.

„Þetta er mjög svipað borunum hér heima, nema hvað holurnar eru heldur grynnri. Þeir eru þarna á flekamótunum, líkt og við," segir Ari stefánsson.

Jötunn, elsti bor Jarðborana, sem er nú við djúpboranir á Kröflusvæðinu verður notaður til verkefnisins.

„Við erum búnir að panta skip hingað fyrstu vikuna í desember. Siglingin út tekur 5 til 7 daga en við erum að reyna að flýta förinni. Það tekur líka tíma að koma bornum og tækjabúnaði, rúmlega 600 tonnum, gegnum tollinn og á borplan. Þetta tekur allt sínn tíma," segir Ari Stefánsson.

Alls munu 25-30 manns vinna að borframkvæmdunum á Azoreyjum og verður meirihluti þeirra Íslendingar.

Azoreyjar eru portúgalskur eyjaklasi í Atlantshafi sem liggur um 1.500 kílómetra vestur af Portúgal. Íbúar eru um 260.000 talsins og býr yfir helmingur þeirra á São Miguel. Skammt er síðan farið var að beisla háhita á Azoreyjum til raforkuframleiðslu en fram til þessa hefur olía verið nýtt til raforkuframleiðslu á eyjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert