Kristján Möller, samgönguráðherra og ráðherra sveitarstjórnarmála, tók vel í hugmyndir Sambands íslenskra sveitarfélaga um að bregðast fljótt og vel við erfiðleikum í rekstri sveitarfélaga vegna bankahrunsins. Fulltrúar samgönguráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga funda um málið á morgun.
Meðal þess sem sambandið leggur til er að sveitarfélögum verði heimilt að leggja fram fjárhagsáætlun á næsta ári sem gerir ráð fyrir hallarekstri. Það er bannað samkvæmt lögum en að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, er í skoðun hvort mögulega verði hægt að grípa til bráðabirgðaaðgerða svo þetta verði heimilt, án þess að til lagabreytinga þurfi að koma.
Þá hefur sambandið einnig lagt til að forgangsveð sveitarfélaga í húsnæði yrði lengt úr tveimur árum í fjögur. Ef að húsnæði er boðið upp þá á sveitarfélagið þar sem húsnæði er forgangsveð sem fer fram fyrir önnur veð með kröfu til tveggja ára. „Þetta gerum við svo það verði mögulegt fyrir sveitarfélögin að slaka á innheimtuaðgerðum gagnvart almenningi, því eins og mál standa, þá er mikilvægt fyrir þau að geta tekið þátt í að lina höggið sem lendir á fjölskyldum í landinu vegna niðursveiflunnar í efnahagslífinu,“ segir Halldór.
Einnig voru kynntar fyrir ráðherra tillögur um breytingar á lögum er varða skil á byggingarlóðum til sveitarfélaga eftir að þeim var úthlutað. Eins og greint hefur verið frá á mbl.is hafa sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu þurft að borga um 10 milljarða vegna innskila á lóðum á þessu ári. Munar þar miklu um að lögin gera ráð fyrir því að lóðum sé hægt að skila á fullu verði ásamt verðbótum. Hverfi sem byggð hafa verið upp samhliða lóðaúthlutunum standa af þessum sökum tóm víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, það er með götum, gangstéttum og ljósastaurum en engum húsum. Þetta hefur bitnað sérstaklega illa á Kópavogsbæ og Hafnarfjarðarbæ sem hafa þurft að greiða hátt í átta milljarða vegna innskila á lóðum. Um 175 þúsund krónur á hvern íbúa í Kópavogi en um 100 þúsund krónur á hvern íbúa í Hafnarfirði.