Ófært er í Víkurskarði en það mun aðallega vera vegna fjölda bíla sem þar sitja fastir. Að sögn Stefáns Þengilssonar hjá Vegagerðinni eru svo margir bílar á veginum að snjóruðningstæki komast ekki Akureyrarmegin að skarðinu.
„Það eru þarna tveir flutningabílar og tveir mjólkurbílar fyrir utan aðra smærri bíla sem sitja fastir síðan í gærkvöldi og nótt. Einn flutningabíll sem ætlaði framúr öðrum sem sat fastur festist sjálfur og lokar nú veginum alveg," sagði Stefán.
Snjórinn er meters þykkur
Þar mun snjórinn vera um eins meters þykkur og er unnið að því að koma snjóruðningstækum Grenivíkurleiðina upp í Dalsmynni til að ryðja skarðið ofan frá.
Stefán sagði að ef allt gengi að óskum mætti reikna með að skarðið yrði rutt um klukkan hálf ellefu og bað hann ökumenn að halda ró sinni og halda ekki í skarðið fyrr en eftir þann tíma.
Færðin annarsstaðar
Vegir eru víðast auðir á Suðurlandi. Þó eru hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka á Nesjavallaleið.
Á Vesturlandi eru hálkublettir frá Borganesi og víða á Snæfellsnesi. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku.
Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir og snjóþekja á flestum leiðum.
Á Norðvestur- og Norðurlandi er þungfært á Þverárfjalli, þæfingsfærð er út Blönduhlíð og á Siglufjarðarvegi þar stendur mokstur nú yfir. Hálkublettir eru á flestum leiðum þó er hálka í Vatnskarðinu og snjóþekja og éljagangur á Öxnadalsheiði. Á leiðum í kringum Húsavík er snjóþekja og stendur mokstur þar yfir.
Á Norðaustur – og Austurlandi er þæfingsfærð á Mývatnsöræfum og stendur mokstur þar yfir. Hálka og skafrenningur er á Fjarðarheiði, hálkublettir og skafrenningur á Fagradal og Breiðdalsheiði. Snjóþekja og skafrenningur á Oddskarði. Hálkublettir eru meðfram ströndinni frá Fáskrúðsfirði að Hvalnesi.