Reykjavíkurborg var í dag dæmd til að greiða manni 20 milljónir króna í bætur fyrir að hafa ekki staðið við skuldbindingu sína um úthlutun lóðar. Maðurinn hafði fengið úthlutað rúmlega 1.200 fermetra lóð við Ánanaust og hugðist reisa þar söluskála með afgreiðslusal og bílalúgu. Hann fékk leyfi til framkvæmdanna 11. september 1997 en aðeins hálfum mánuði síðar var leyfið afturkallað af byggingarfulltrúa. Þá höfðu íbúar í nágrenninu mótmælt framkvæmdinni. Samkomulag varð um að maðurinn hætti öllum framkvæmdum gegn því að borgin útvegaði aðra sambærilega lóð til uppbyggingar greiðasölu.
Sú hugmynd kom upp að borgin úthlutaði manninum tæplega 2.000 fermetra lóð við Holtagarða í stað þeirrar sem af honum var tekin og voru útbúin drög að samkomulagi þar að lútandi. Ekki kom þó til þess að þeirri lóð væri úthlutað þar sem ekki lá fyrir ákvörðun stjórnvalda um legu Sundabrautar og nauðsynlegar breytingar á aðal- og deiliskipulagi af þeim sökum. Tilraunir til lausnar á málinu með öðrum hætti báru ekki árangur og því var málið lagt fyrir dómstóla.
Maðurinn krafðist upphaflega rúmlega 100 milljóna króna í bætur, m.a. tæplega 50 milljóna vegna rekstrartaps.
Héraðsdómur Reykjavíkur taldi 20 milljóna króna bætur hæfilegar.