Ekkert ríki á Norðurlöndunum hefur tileinkað sér stefnu Margretar Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, og Ronalds Reagan, fyrrum forseta Bandaríkjanna, í efnahagsmálum, líkt og Ísland. Til að mynda með sölu á eignum ríkisins, takmarkaðar hömlur regluverksins og skuldsettur vöxtur fyrirtækja erlendis, að því er fram kemur í fréttaskýringu Bloomberg fréttastofunnar.
Nú þegar timburmennirnir hafa tekið völdin, vilja margir landar Geirs H. Harrde, forsætisráðherra, að ríkisstjórn hans og Samfylkingarinnar taki ábyrgð á því að hafa breytt landinu úr því að vera eitt af ríkustu löndum heims miðað við fólksfjölda í ríki sem betlar eftir aðstoð til þess að komast hjá efnahagslægð, að því er segir á vef Bloomberg.
Spáir miklum sviptingum í næstu kosningum
„Margir telja að ríkisstjórninni hafi mistekist að takast á við vandann,” segir Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í viðtali við Bloomberg. Segist hann telja að miklar sviptingar eigi eftir að eiga sér stað í næstu kosningum en næstu þingkosningar fara fram í maí 2011.
En ekki eru allir
viðmælendur Bloomberg á því að það eigi að bíða til ársins 2011 með að boða til
kosninga. „Við getum ekki markað nýtt upphaf með sama fólkinu,” segir G. Birnir
Ásgeirsson, eigandi bílasölunnar Bill.is.
Ingibjörg Elsa Björnssdóttir, jarðfræðingur, segir að hún muni kjósa Vinstri
græna í næstu kosningum. „Það er svo mikil reiði í þjóðfélaginu vegna þess sem
gerist, “ segir Ingibjörg Elsa og bætir við „Við erum vitni að dauða
Reaganisma-Thatcherisma. Við verðum að hverfa aftur til gamalla gilda. Frjálsi
markaðurinn er ekki að hegða sér líkt og gert var ráð fyrir að hann gerði.”
Ísland stendur frammi fyrir vöruskorti
Ísland var í fimmta sæti lista Sameinuðu þjóðanna 2007/2008 yfir ríkustu þjóðir heims miðað við fólksfjölda. Nú stendur landið frammi fyrir skorti á innfluttri vöru, svo sem matvöru og fatnaði.
Gengi íslensku krónunar hefur hrunið og spáir Lars Christensen, yfirhagfræðingur Danske Bank, því að verðbólga eigi eftir að aukast í 75% á komandi mánuðum. Úrvalsvísitalan hefur hrunið um 90% undanfarið sem er tvöfalt meira fall heldur en í kauphöllunum í Ósló og Stokkhólmi.
Farið af stað með betliskálina
Segir Bloomberg að viðbrögð Geirs og Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, séu að fara út með betliskálina með því leita eftir lánum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (IMF) og Rússlandi. Segir Bloomberg að Ísland sé fyrsta vestræna ríkið sem hafi óskað eftir hjálp frá IMF síðan Bretar óskuðu eftir aðstoð árið 1976.
Segir bankastjórn Seðlabankans hafa mistekist hrapalega
Bloomberg rifjar upp einkavæðingu bankanna þegar Davíð var forsætisráðherra og Geir fjármálaráðherra. Skattar hafi verið lækkaðir og reynt að koma á auknu frjálsræði í hagkerfinu. Segir í fréttaskýringu Bloomberg að reiði almennings beinist meðal annars að Davíð Oddssyni. „Bankastjórn Seðlabankans hefur mistekist hrakalega og er þess krafist úr öllum áttum að þeir víki,” segir Þorvaldur Gylfason.
Það verður lengi ör á sál okkar
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tekur undir með Þorvaldi að bankastjórnin hafi gert mistök en segir að ábyrgðin sé hjá Geir H. Haarde. „Það væri ódýr lausn hjá ríkisstjórninni að benda á einn aðila og losa sig við hann,” segir Steingrímur og bætir við „Það verður ör á sál okkar í langan tíma.”