Miklar líkur eru á því að fjöldi innflytjenda forði sér heim frá Íslandi vegna fjármálakrísunnar en flestir þeirra eru frá Póllandi. BBC fjallar um málið í dag og tekur Flateyri sem dæmi þar sem íbúarnir séu 200 talsins, þar af 100 innflytjendur. Segir í umfjöllun BBC að Flateyri sé langt frá storminum sem geisar yfir fjármálalífi Reykjavíkur en stormsins verði fljótlega vart fyrir vestan.
BBC segir að eina starfsemin sem finna má á Flateyri fyrir utan barinn, sé fiskvinnslan á staðnum þar sem starfsmennirnir koma frá Póllandi, Filippseyjum og Taílandi.
Að sögn Vigdísar Erlingsdóttur, eiganda vinnslunnar, starfa 36 hjá fyrirtækinu og aðeins þrír eru Íslendingar. Flestir komi frá Póllandi og ekki væri hagt að halda vinnslunni gangandi án þeirra. „Þeir eru undirstaða bæjarins."
Að sögn Vigdísar hefur margt breyst frá því hún var að alast upp á Flateyri. Á þeim tíma voru íbúarnir 350-400 talsins en nú séu þeir 200 og þarf séu um eitt hundrað útlendingar.
BBC ræðir við Janinu Krzyszewska sem kom til Flateyrar fyrir þremur árum. Hún býr þar ásamt eiginmanni og börnum og þau hafa keypt sér hús á Flateyri. „Fyrir mig er heima hér en ég geri ráð fyrir að fara aftur til Póllands í framtíðinni. Það fer allt eftir verðbólgunni."
„Hún fær mig til þess að íhuga það alvarlega að fara heim aftur. Bróðir minn er harðákveðinn í að fara aftur til Póllands og frændi minn vill líka fara," segir Janina.
Segir í grein á vef BBC að útlendingahatur þrífist á Íslandi. Til að mynda hafi leigubílstjóri sem ók greinarhöfundi í Reykjavík sagt að um 20 þúsund Pólverjar væru á Íslandi og það væri 20 þúsundum of mikið.
Dorota Erutkowska-Bragasson, sem er gift Íslendingi og vinnur sem túlkur, segir í samtali við BBC að fjölmiðlaumfjöllun um samfélag Pólverja, nauðganir og þjófnað hafi haft áhrif til hins verra. „Íslensk börn heyra slæma hluti um Pólverja, kannski frá foreldrum eða annarsstaðar. Þau koma í skólann og nota þetta á, segja pabbi þinn er nauðgari eða eitthvað því um líkt. Þetta er sorglegt."