Inneign í eigu sjóðsfélaga - ekki bankans

Kaupþing.
Kaupþing. Reuters

Í ljósi þess að Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir rekstur Kaupþings vill bankinn taka það fram að inneign sjóðfélaga í lífeyrisafurðum Kaupþings er aðskilin eignum bankans og ekki er hægt að ráðstafa henni upp í skuldbindingar bankans. Þetta þýðir að eignir sjóðanna eru eignir sjóðfélaga en ekki bankans. Þetta kemur fram á vef Kaupþings.

Ólíklegt að grípa þurfi til skerðingar

Þar er vísað til fréttatilkynningar frá Landssamtökum lífeyrissjóða frá 7. október en þar kemur fram að allt bendi til þess að grípa þurfi til skerðingar á lífeyrisréttindum á fyrri hluta árs 2009.

„Frjálsi lífeyrissjóðurinn vill taka fram að samkvæmt bráðabirgðaútreikningum verður að teljast ólíklegt m.v. núverandi stöðu að tryggingadeild sjóðsins þurfi að grípa til skerðingar á réttindum og lífeyri sjóðfélaga á næsta ári vegna áætlaðrar lækkunar á ávöxtun.

Áætluð lækkun á ávöxtun fjárfestingarleiða Frjálsa lífeyrissjóðsins vegna gengisfalls hlutabréfa viðskiptabankanna þriggja og stærð leiðanna 3. október sl. er um 0-4%, mismunandi eftir fjárfestingarleiðum. Ekki liggur ljóst fyrir hvort eða hve mikið af skuldabréfum bankanna í eigu sjóðsins tapast en unnið er hörðum höndum að því að gæta hagsmuna sjóðsins," að því er segir á vef Kaupþings.

Áætluð lækkun á ávöxtun fjárfestingarleiða Lífeyrisauka 1-4/Vista 1-4 vegna væntanlegs gengisfalls hlutabréfa viðskiptabankanna þriggja og stærð leiðanna 3. október sl. er um 1-6%, mismunandi eftir fjárfestingarleiðum. Ekki liggur ljóst fyrir hvort eða hve mikið af skuldabréfum bankanna í eigu sjóðanna tapast en unnið er hörðum höndum að því að gæta hagsmuna sjóðanna. Ávöxtun Lífeyrisauka 5/Vista 5 lækkar ekki, samkvæmt tilkynningu á vef Kaupþings.

Iðgjöld lögð inn á innlánsreikninga

„Sjóðfélagar þurfa ekki að óttast að iðgjöld sem hafa verið greidd frá og með 6. október sl. og iðgjöld sem berast sjóðnum framvegis tapist eða lækki í verði vegna væntanlegs gengisfalls verðbréfa Glitnis, Landsbankans og Kaupþings. Iðgjöld sem berast fara nú tímabundið inn á innlánsreikninga, sem ríkið hefur ábyrgst.

Allir sjóðfélagar eru hvattir til þess að halda áfram að leggja fyrir í viðbótarlífeyrissparnaði hafi þeir svigrúm til þess og njóta þar með 2% mótframlags launagreiðanda skv. kjarasamningi. Einnig er mögulegt að lækka framlagið úr 4% í 2% af launum og fá áfram mótframlags launagreiðanda," að því er segir á vef Kaupþings.

Sjá nánar á vef Kaupþings


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert