Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, lagði á ríkisstjórnarfundinum í morgun fram frumvarp þess efnis að greiðsluskilmálabreytingar á fasteignaveðlánum verði ekki stimpilgjaldsskyld eins og verið hafi fram til þessa.
Frumvarp ráðherra var samþykkt og verður það, að hans sögn, kynnt í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna við fyrsta tækifæri. Sagði ráðherra menn stefna að því að afgreiða frumvarpið frá Alþingi eins fljótt og auðið væri. „Þetta ætti að auðvelda bönkunum að koma til móts við þá sem eru að lenda í greiðsluerfiðleikum.“