Óvelkomnar í gæludýraverslun í Glasgow

„Við fengum þau skilaboð frá verslunareigendunum að við værum ekki velkomnar inn í búðinni,“ sagði Ósk Guðvarðsdóttir í samtali við mbl.is eftir að henni og Ernu Björg Kjartansdóttur, hafði verið fleygt út úr gæludýraverslun í Glasgow fyrir það eitt að vera frá Íslandi.

Hrun íslensku bankanna hefur hleypt illu blóði í marga Breta eftir að Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands og Gordon Brown forsætisráðherra, greindu frá því Íslendingar ætluðu ekki að standa við skuldbindingar sínar vegna Icesave innlánsreikninga Landsbankans.

Ósk segir að talað hafi verið um bankakreppu og gjaldþrot áður en þær voru reknar út. „Það byrjaði einhver að tala um bankakreppu og gjaldþrot, en við gerðum okkur ekki alveg grein fyrir því. Síðan var þeim skilaboðum komið til okkar að við værum ekki velkomnar inn í búðinni af því að við værum Íslendingar. Þetta finnst okkur aðeins of langt gengið. Við höfum ekki gert neinum neitt,“ segir Ósk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert