Ríkissjóður leggi til fjármuni

Segir viðbúið að tjón Seðlabankans geti orðið mikið.
Segir viðbúið að tjón Seðlabankans geti orðið mikið. mbl.is

„Það liggur ekki fyrir hvert endanlegt tjón Seðlabankans verður en það er viðbúið að það verði mikið,“ segir Gylfi Magnússon dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. Seðlabanki Íslands kallaði á mánudag eftir frekari tryggingum fyrir lánum fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum.

Veð sem áður voru metin á um 300 milljarða eru metin á 150 milljarða í dag eins og fram kemur í Morgunblaðinu. Fjármálafyrirtækjunum var í dag veittur vikufrestur til þess að greiða skuld sína við seðlabankann eða útvega ný veð sem bankinn getur sætt sig við.

Seðlabankinn átti í lok september kröfur á íslensk fjármálafyrirtæki upp á um 500 milljarða króna að sögn Gylfa.

„Íslensk fjármálafyrirtæki áttu kröfur á Seðlabankann á móti þessum 500 milljörðum upp á um 240 milljarða. Sum af þessum lánum voru gegn veðum sem voru í lagi, en stóri hluti var gegn veðum sem ekki geta verið í lagi eftir bankahrunið. Það er lítið annað hægt að gera núna að en áætla tjónið og taka á stöðunni. Vafalítið verður það sársaukafullt. Ríkissjóður mun að lokum þurfa að leggja seðlabankanum til fjármuni, ef allt fer á versta veg.“

Gylfi segir seðlabankann ekki hafa verið gera óeðlilegar veðkröfur í sinni lánastarfsemi, ef horft er til annarra seðlabanka. Hins vegar sé um miklar fjárhæðir að ræða miðað við hversu Ísland er lítið. „Í sjálfu sér var Seðlabankinn að gera það sem seðlabankar gera erlendis. Að veita fjármálafyrirtækjum fyrirgreiðslu. Þegar bankakerfið hrynur þá verða veðin ósköp rýr og þá verður seðlabankinn fyrir tjóni. Það er engin afsökun í sjálfu fyrir Seðlabankann, að hann hafi ekki verið að hegða sér á óeðlilegan hátt í samanburði við aðra seðlabanka. Það vekur hins vegar upp spurningar um hvort sambærileg vandamál geti komið upp hjá seðlabönkum erlendis á næstunni, og þá með alvarlegri afleiðingum ef veð bankanna eru viðkvæmari en í tilfelli bankans hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka