Fáum vonandi niðurstöðu fljótt

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, talar við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, talar við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund. mbl.is/Golli

„Við fáum vonandi botn í málið áður en langt um líður,“ sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þegar hann var spurður um væntanlegt samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að loknum ríkisstjórnarfundi nú rétt fyrir hádegi. 

Spurður um þau skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji fyrir lánveitingu sagði Geir þau enn eiga eftir að skýrast. „En ég á ekki von á því að það verði neitt óaðgengilegt,“ sagði Geir.

Aðspurður hversu fljótt hlutirnir gætu gengið benti hann á að hugsanlegt samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn yrði líklega gert með fyrirvara um samþykki stjórnar sjóðsins, sem taka þyrfti formlega afstöðu til málsins. Tók hann fram að stjórn sjóðsins fundaði reglulega og því ætti að vera hægt að vinna hlutina nokkuð hratt. 

„Það er verið að reyna að búa til þjóðhagsspá og gera sér grein fyrir hverjar horfurnar eru varðandi okkar þjóðarbúskap í heild sinni, en það er erfitt að gera það vegna þess að þau er mikið um getsakir í þeim efnum. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þau mál þróast. Það er alveg ljóst að það verður hrap nokkurt í okkar þjóðarframleiðslu. Það verður mun meiri halli á ríkissjóði á næsta ári en við gerðum ráð fyrir. Það er óvissa um verðbólguna vegna þess að hún ræðst af því hvað gengið styrkist fljótt. Við vitum þó að utanríkisviðskiptin verða í miklu betra lagi vegna þess að útflutningur vex mjög hratt en innflutningur minnkar. Spurningin er sú hvað þetta ástand verði lengi og hvernig við getum með sem skynsamlegustum hætti komið okkur í gegnum það,“ sagði Geir og tók fram að því miður væri allar horfur á að atvinnuleysi myndi aukast töluvert. 

„Það er þessi mynd sem við erum að takast á við í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Og svo það hvernig best er að bregðast við þessu ástandi þannig að við getum sem fyrst komist út úr því.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka