4000 börn vilja á Stóra sviðið

Það myndaðist röð fyrir utan Borgarleikhúsið þegar leikglaða krakka streymdi …
Það myndaðist röð fyrir utan Borgarleikhúsið þegar leikglaða krakka streymdi að í prufur Friðrik Tryggvason

Sagt hefur verið að leiklistin blómstri í kreppunni því fólk sæki í auknum mæli í leikhús til að létta geðið. Þetta virðist eiga við um alla aldurshópa og ekki síst þá yngstu, því íslensk ungmenni flykktust í Borgarleikhúsið í dag til að skrá sig í áheyrnarprufur fyrir Söngvaseið.

Fullt var út úr dyrum í dag af áhugasömum leikurum, en alls mættu um 4.000 krakkar á aldrinum 8 -18 ára sem vildu láta reyna á hvort þau hrepptu hlutverk sem eitt af Von Trapp systkinunum. Á næstu þremur vikum munu börnin öll fá tækifæri til að láta ljós sitt skína á sviði Borgarleikhússins og í lok nóvember verður svo ljóst hvaða 14 börn munu skipta með sér hlutverkunum sjö.

Söngvaseiður er einn þekktasti söngleikur allra tíma og hefur tvisvar sinnum verið settur upp í atvinnuleikhúsi hér á landi. Krakkarnir sem hreppa hlutverkin þurfa bæði að geta leikið og sungið því leikritið er fullt af tónlist sem er löngu orðin sígild.

Leikstjóri Söngvaseiðs er Þórhallur Sigurðsson og Valgerður Guðnadóttir fer með hlutverk Maríu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert