Aðgerðir gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi meginverkefnið

Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.
Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Eyþór Árnason

Aðgerðir gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi eiga að vera meginverkefnið í norrænu samstarfi að mati íbúa Norðurlandanna. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem gerð var að beiðni Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Fjórir af hverjum fimm telja jákvætt að Norðurlöndin standi saman í baráttunni gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi og næstum þriðjungur telur það vera brýnasta verkefnið í norrænu samstarfi.

Könnunin sýnir einnig að umhverfisvernd og öryggismál eru ofarlega á lista yfir þau mál sem almenningur vill að fjallað sé um í norrænu samstarfi.
„Við höfum löngum vitað að norrænt samstarf að umhverfismálum nýtur mikils stuðnings meðal almennings á Norðurlöndum. En að svo stór hluti fólks skuli telja að bregðast þurfi við glæpastarfsemi af meiri þunga er mál sem norrænir stjórnmálamenn verða að sjálfsögðu að taka alvarlega. Ég túlka tölurnar þannig að almenningur styðji samstarf sem skilar sýnilegum árangri,“ segir Halldór Ásgrímsson, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Viðmælendur nefna utanríkis- og öryggismál sem þriðja mikilvægasta verkefnið í norrænu samstarfi en það vekur sérstaka athygli Jan Eriks Enestam, framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs og fyrrverandi umhverfis- og varnarmálaráðherra Finnlands.
„Hvorki meira né minna en 65% almennings telja það kost að Norðurlöndin starfi saman að þessum málum. Það er í sjálfu sér umhugsunarefni og við hljótum að spyrja okkur að því hvort ekki sé ástæða til að ræða hvort utanríkis- og öryggismál eigi að vera hluti af opinberu samstarfi Norðurlandaþjóðanna. Það væri auk þess í góðu samræmi við þann hnattræna veruleika sem almenningur á Norðurlöndum býr við,“ bætir hann við.

Könnunin var gerð á Norðurlöndunum fimm í september 2008 af Research International. Viðmælendur voru 2500 og skiptust jafnt eftir þjóðerni, kyni og aldri.

Hnattvæðingin og staða Norðurlandanna í hnattvæddum heimi verða einmitt ofarlega á dagskrá Norðurlandaráðsþings að þessu sinni. Þingið hefst í Helsinki mánudaginn 27. október og lýkur miðvikudaginn 29. október. Þar munu þingmenn frá öllum Norðurlöndunum ræða framar öðru fjármálakreppuna og norræna velferðarlíkanið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert