Stjórn BSRB og jafnréttisnefnd bandalagsins mótmæla harðlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær að fresta fyrirhuguðu jafnréttisþingi sem halda átti í nóvember.
Það er eindregin skoðun BSRB að í „óvissuástandi“ eigi að leitast við að stinga á þjóðfélagsmeinum sem kynjamisrétti óneitanlega er.
Í samþykkt stjórnar BSRB segir að ríkisstjórnin hafi marglýst yfir því að á undanförnum mánuðum hafi verið unnið að því á markvissan hátt að taka á kynjamisréttinu. Því sé með öllu ótækt að jafnréttisþing skuli ekki haldið eins og fyrirhugað var, til að kynna afrakstur þessarar vinnu og efna jafnframt til umræðu um framhaldið.
Félags- og tryggingamálaráðuneyti taldi ólíklegt að jafnréttisþingið næði markmiðum sínum í því óvissuástandi sem ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar, og ákvað því að fresta þinginu um ótiltekinn tíma.