Ekki kjarasamningar stóru tækifæranna

Inga Rún Ólafsdóttir
Inga Rún Ólafsdóttir

„Samningar milli stéttarfélaganna og Launanefndar sveitarfélaga hljóta fyrst og fremst að snúast að standa vörð um atvinnuöryggi fólks. Menn geta því ekki búist við kjarabótum, það er einfaldlega ekki lag núna til að sækja slíkt. Þetta verða ekki kjarasamningar stóru tækifæranna,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands sveitarfélaga.

Samningar 74 stéttarfélaga við sveitarfélög sem gerðir voru í maí 2005 renna út í lok nóvember næstkomandi. Inga Rún segir að fulltrúar Launanaefndar sveitarfélaga hafi hitt fulltrúa flestra þeirra að undanförnu, heyrt hvar áherslur þeirra liggja og gengið frá viðræðuáætlunum.

„Formlegar samningaviðræður eru ekki hafnar en vonandi fer þetta af stað á næstu dögum,“ segir Inga Rún.

Kröfur stéttarfélaganna eru áþekkar. Samninganefnd Framsýnar þingaði með Launanefnd í gær og kynnti kröfugerð sína. Félagið fer fram á að taxtar hækki um 30 þúsund krónur á mánuði og að laun verði leiðrétt til að vega upp á móti verðbólguþróun undanfarna mánuði. Þá er það samdóma álit að gerðir verði skammtímasamningar, til fjögurra eða sex mánaða.

„Óvissan í efnahagslífinu er algjör og því ekki hægt að gera langtímasamninga. Mörg sveitarfélög hafa farið illa út úr kreppunni og því lítið svigrúm hjá þeim í bili. Það er því brýnt að gera mjög hófstillta samninga,“ segir Inga Rún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert