Fjölmiðlafrelsi mest á Íslandi

Blaðamenn ræða við Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Blaðamenn ræða við Geir H. Haarde, forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Frelsi fjölmiðla er mest á Íslandi, í Noregi og Lúxemborg samkvæmt nýrri skýrslu, sem samtökin Blaðamenn án landamæra hafa gefið út. Neðst á listanum yfir 173 ríki er Eritrea en Kína, sem hélt m.a. ólympíuleikana í sumar, er í 167. sæti. 

Ísland og Noregur voru einnig efst á lista samtakanna á síðasta ári en Lúxemborg er nú í fyrsta skipti með í þessum samanburði.

Blaðamenn án landamæra segja í nýrri skýrslu, að veröldin hafi breyst mikið eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 2001 og mörg af stærstu lýðræðisríkjum heims séu smátt og smátt að skerða frelsi fjölmiðla. Einnig hafi trúarbrögð og pólitískar bannhelgar nú meiri áhrif en áður í ríkjum sem voru að feta sig í átt til meira frelsis.

Eistland, Finnland og Írland eru í sætum 4.-6. á listanum, og í sætum 7-12 eru  Belgar, Lettar, Slóvakar, Nýsjálendingar, Svíar og Svisslendingar. Danir eru í 14.-15. sæti ásamt Austurríkismönnum. Bretar eru í 23. sæti og Bandaríkjamenn í 36. sæti.

Fyrir ofan Eritreu í neðstu sætunum eru Víetnam, Kúba, Búrma, Túrkmenistan og Norður-Kórea.

Blaðamenn án landamæra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert