Sex manna sendinefnd, fimm Norðmenn og einn Svíi, á vegum norskra stjórnvalda er komin til landsins. Mun hún eiga fund með ríkisstjórninni klukkan 9 í fyrramálið. Segist sendinefndin vera komin hingað til lands til þess að bjóða fram hjálp. Það sé í höndum ríkisstjórnarinnar að greina frá því hvernig aðstoð Íslendingar þurfa á að halda til þess að komast út úr þessum efnahagsþrengingum sem hér ríkja.
Sagðist sendinefndin í samtali við Morgunblaðið ætla að kynna sér ástandið betur hér á Íslandi en hún vilji gera það sem í hennar valdi stendur til þess að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki og fjöldi fólks missi vinnuna.