Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að tveir karlmenn, sem höfðu óskað eftir hæli á Íslandi, yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi því rökstuddur grunur væri um að þeir hafi villt á sér heimildir við komuna til Íslands auk þess sem grunur sé um að þeir hafi báðir verið liðsmenn Frelsishers Kosovo. Héraðsdómur Reykjaness kvað upp úrskurð sinn í málum mannanna þann 16. október og kærði annar maðurinn úrskurðinn þann sama dag og hinn daginn eftir til Hæstaréttar.
Dómur Hæstaréttar var birtur klukkan 16:30 á vef dómsins en samkvæmt honum rann gæsluvarðhaldsúrskurður yfir mönnunum út kl. 16:00 í dag. Ekki hefur fengið staðfest hvert framhald málsins er, hvort mönnunum verði vísað úr landi eða þeim gert að sæta farbanni.
Segir í niðurstöðu héraðsdóms að lögregla hafi óskað eftir því að leita í farangri annars mannsins þar sem hann dvaldi á gistiheimili fyrir hælisneytendur í Reykjanesbæ en grunur hefði vaknað um að hann hefði komið undan gögnum áður en hann óskaði eftir hæli hér á landi. Hefði maðurinn heimilað leitina og hefði þá verið lagt hald á farsíma sem hafði að geyma mikið safn mynda.
Við skoðun myndanna hefði mátt sjá margar myndir af manninum og einnig af hinum manninum sem einnig var úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hefði vakið sérstaka athygli lögreglu að á sumum myndanna var maðurinn þungvopnaður. Í síma hans fundist jafnframt myndbrot sem sýnir tvo menn í íslenskri fjöru, en þeir munu báðir vera hælisleitendur hér á landi frá Kósóvó, þaðan sem tvímenningarnir segjast vera.