eftir Ylfu Kristínu K. Árnadóttur
Þótt margir Íslendingar erlendis sleppi við meinfýsnar athugasemdir eða litla þjónustulund vegna þjóðernisins berast reglulega sögur af fólki sem hefur verið neitað um vörur eða þjónustu fyrir það eitt að vera bornir og barnfæddir hér á landi.
Aðalheiður Lilja Úlfarsdóttir hefur verið búsett í Danmörku í rúm sex ár. Hún segir að sjálf hafi hún átt erfitt með að trúa sögum sem þessum þangað til hún varð aðalsöguhetjan í einni slíkri fyrir skemmstu. Aðalheiður fór inn í símabúð í Kaupmannahöfn til að kaupa þráðlaust ferðanet, eða pung, fyrir tölvuna sína. Þar kom í ljós að fyrirtækið hafði komið upp sérstakri Íslendingareglu. „Afgreiðslumaðurinn spurði hvaðan ég væri og ég sýndi honum íslenskt ökuskírteini. Þá hringdi hann eitthvað og sagðist svo því miður ekki getað búið til þennan reikning fyrir mig því þeir gætu ekki verið vissir um að ég gæti borgað,“ segir Aðalheiður.
Hún segist ekki hafa vitað hvort hún hafi átt að verða reið eða finnast þetta fyndið og hallærislegt en farsíminn hennar er skráður hjá sama símafyrirtæki. „Ég spurði hvort ég ætti að sýna honum dönsku launaseðlana mína. Svo sagði ég bara „bless, þá fer ég eitthvað annað“.“ Aðalheiður hélt rakleiðis af stað í annað símafyrirtæki þar sem hún fékk m.a.s. töluvert ódýrari pung. „Þar spurði ég hvort þeir væru með Íslendingareglu og afgreiðslumaðurinn horfði á mig eins og ég væri kjáni,“ segir hún.