Íslenska sprotafyrirtækið CLARA hlaut verðlaun á Venture Cup Norden ráðstefnunni í gær, sem er vísir að fyrstu frumkvöðlakeppni Norðurlandanna.
Að sögn Innovit er um að ræða sameiginlegt átak Innovit og sambærilegra aðila á Norðurlöndunum og sé stefnt að því að frá og með næsta ári verði viðburðurinn að opinberri frumkvöðlakeppni Norðurlandanna.
Um tuttugu sprotafyrirtæki frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi voru valin til þátttöku, en þau voru öll í verðlaunasæti í frumkvöðlakeppni sinnar þjóðar.
CLARA, sem stofnað var fyrr á þessu ári í kjölfar frumkvöðlakeppni Innovit, var í kjölfar atkvæðagreiðslu valið besta sprotafyrirtækið af áhorfendum og stjórnendum annarra norrænna sprotafyrirtækja. Einnig hlutu sænsku sprotafyrirtækin OculusAI og Rehact verðlaun á Ventur Cup Norden.
Fyrirtækið vinnur með sjálfvirkum hætti upplýsingar úr skoðanakönnunum á netinu og notar gervigreind sem greinir samhengi og tilfinningar í texta. Þannig getur CLARA lækkað kostnað sem fyrirtæki leggja almennt í markaðsrannsóknir.