Rektorar íslenskra háskóla hafa stofnað til samráðs um hvernig skólarnir geti brugðist við þeim breyttu aðstæðum sem nú hafa skapast í efnahagslífi þjóðarinnar. Vilja þeir, að menntun verði sett í forgang og hlúð að nýsköpun sem forsendu til frekari framþróunar.
Rektorar munu halda áfram samráði sínu á þessum grunni og er næsti fundur þeirra áætlaður í byrjun næsta mánaðar.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Rektorar íslenskra háskóla telja að bregðast þurfi við erfiðleikum í efnahagslífinu og yfirvofandi atvinnuleysi með fjölþættum aðgerðum á sviði menntamála. Sérstaklega þurfi að nýta þann kraft og þekkingu sem háskólarnir búa yfir til að efla nýsköpun og skapa ný atvinnutækifæri.
Stór hluti atvinnulausra verður háskólamenntað fólk og þarf að gefa því tækifæri til að bæta við sína menntun með fjölbreytilegu námsframboði svo það geti gengið tvíeflt til starfa þegar aðstæður batna. Setja þarf aukinn kraft í rannsóknir og þá sérstaklega líta til ávinningsins sem ætla má að þær leiði til fyrir atvinnusköpun í landinu. Til grundvallar liggur að efla þarf gagnrýna hugsun og víðsýni og auka með landsmönnum kjark og áræði til að takast á við breyttar aðstæður og ný viðhorf.
Mikil og stórkostleg tækifæri blasa við Íslendingum og vilja háskólarnir leggjast á eitt með þjóðinni um að þau verði nýtt til uppbyggingar og framþróunar á öllum sviðum atvinnulífs og menningar. Rektorar hvetja stjórnvöld eindregið til að setja virkjun mannauðsins í forgang og móta með háskólunum nýja sókn til velferðar og öflugs samfélags. Framtíð þjóðarinnar byggir á því að hér búi vel menntað og framsækið fólk.
Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst
Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Skúli Skúlason, rektor Háskólans á Hólum
Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík
Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri."