„Eins og staðan er núna í atvinnumálum þjóðarinnar og almennt skýtur skökku við að embættismenn geti leyft sér að taka sér það vald í hendur að hugsa frekar um útlendinga og innflutta vöru, heldur en innlenda vöru.“ Þetta segir Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri Sigurjóns Magnússonar ehf., en hann gagnrýnir mjög um 3,5% vörugjaldahluta sem ríkið leggur óbeint á innlenda framleiðslu okkar.
Félagið hefur m.a. smíðað slökkviliðs- og sjúkrabíla og fer framleiðslan fram hér á landi. „Sjúkrabílar og slökkvibílar eru með niðurfellanlegu vörugjaldaákvæði í tollum. En á hluta innlenda þáttarins er lagt 13% vörugjald við tollafgreiðslu sem næst ekki að gera grein fyrir í aðvinnsluskýrslu til niðurfellingar, vegna annarra birgja okkar hér innanlands. Hins vegar, ef tekinn er dýr jeppi og honum breytt fyrir sambærilega upphæð og sjúkrabílum, greiðast engin vörugjöld af breytingunum. Þarna er klárlega um mismunun að ræða,“ segir Sigurjón.
Í nýlegu útboði vegna smíði fjögurra nýrra slökkvibíla fyrir SHS á vegum borgarinnar, tóku tveir þátt, fyrirtæki Sigurjóns með afhendingartíma 22 mánuði og Ólafur Gíslason ehf. með 18 mánaða afhendingartíma, en það tilboð gerði ráð fyrir því að bílarnir yrðu smíðaðir í Póllandi. „Ég þarf að hafa tilboðið okkar um 3,5% hærra vegna vörugjaldakröfu hjá ríkinu. En ef ég flyt þennan bíl inn fullbúinn get ég lækkað tilboðið okkar um þetta,“ bendir Sigurjón á. Tilboð fyrirtækis hans hafi verið 17% lægra með 4 mánuðum lengri afhendingartíma en tilboð Ólafs Gíslasonar og gæðin sambærileg og í innfluttum slökkvibílum.
Sigurjón kveðst hafa bent á þessi mál frá árinu 2002. „Ég er búinn að tala við marga ráðherra og fara á marga fundi í iðnaðar- og fjármálaráðuneytinu,“ segir hann. Hann segir viðbrögð manna hafa verið þau að þeir sjái vandann „en þeir hafa sýnt að þeir hafa engan áhuga á að gera neitt í þessu, heldur vísa hver á annan“.
29. september ákvað innkaupadeild Reykjavíkur og nefnd á vegum slökkviliðsins að ganga til samninga við Ólaf Gíslason um innflutta slökkvibíla. Sigurjón segir að sér finnist það stórmál þegar sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg vinni gegn innlendri framleiðslu líkt og gert hafi verið með því að samþykkja um 200 millj. kr. kaup slökkvibíla í Póllandi, með því að samþykkja hærra tilboðið og styðjast við afhendingu bílanna.