Refsikröfu vegna ummæla vísað frá

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfu þýsks manns um að ummæli, sem íslenskur maður viðhafði um hann í tölvubréfi til þriðja aðila verði dæmd dauð og ómerk og að Íslendingurinn verði dæmdur til refsingar.

Mennirnir, sem deildu, eru báðir stjórnarmenn í Evrópusamtökum fatlaðra golfáhugamanna. Árið 2006 voru tveir nýir meðlimir kjörnir í stjórn samtakanna og þá sendi Þjóðverjinn tölvupóst á ensku til annarra í stjórninni þar sem þeir eru hvattir til að „gera þessum glæpamönnum ekki kleift að taka framar þátt í golfmótum fatlaðra,“ eins og það var orðað í íslenskri þýðingu.

Íslendingurinn brást við þessu með því að senda tölvupóst þar sem m.a. er fullyrt  að Þjóðverjinn hafi hlotið dóm í eigin landi fyrir síelti og sé vanheill andlega. Þjóðverjinn kærði ummælin til lögreglu á Íslandi en bæði lögreglan og ríkissaksóknari vísuðu kærunni frá. Þá fór Þjóðverjinn í einkamál.

Í dómi héraðsdóms segir, að þótt Íslendingurinn hafi ekki getað sannað ummæli sín í tölvubréfunum verði  að líta til þess í hvaða samhengi þau voru sett fram, svo og hvort tilefni hafi verið til þeirra. Óumdeilt sé að tölvupóstur Íslendingsins sé svar við tölvupósti Þjóðverjans frá deginum áður þar sem voru sérlega meiðandi ummæli látin falla í garð tveggja nafngreindra einstaklinga.

Þjóðverjanum hafi tæplega getað dulist að við svo óvægnum og harkalegum árásum á persónur þeirra sem í hlut áttu kynni að verða brugðist af einhverjum þeirra sem fengu tölvupóst hans í hendur.

Fyrir dómi sagðist Íslendingurinn ekki hafa átt annarra kosta völ en að svara ásökunum Þjóðverjans í garð hinna tveggja nafngreindu einstaklinga, enda væru þeir góðir vinir hans og samstarfsfélagar. 

Dómurinn vísar til þess að samkvæmt lögum sé heimilt að láta refsingu falla niður ef tilefni ærumeiðingar hafi veirð ótilhlýðilegt hátterni þess manns sem telji sér misboðið, eða hann hafi goldið líku líkt. Segir dómurinn ekkert standa því í vegi að ákvæðinu verði beitt með lögjöfnun í því tilviki þegar sá, sem telji sér misboðið krefjist ómerkingar ummæla, miskabóta og kostnaðar við birtingu dóms.

„Við mat á ummælum stefnda verður því bæði til þess litið að réttmætt tilefni var til þeirra, svo og til þess að þau þykja ekki fela í sér þyngri dóm um stefnanda en hann mátti vænta sem andsvars við tölvupósti sínum. Að því virtu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu," segir í niðurstöðum dómsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert