Valgerður Sverrisdóttir varaformaður Framsóknarflokksins vill að nýjar kosningar fari fram um leið og þjóðin sé komin framúr mestu erfiðleikunum. Hún segir ekki ljóst hvort sama fólkið verði í oddastöðum. Hún segist hafa heyrt þær raddir að stjórnmálaflokkar hafi fallið með fjármálamarkaðnum. Hún ætli ekki alfarið að taka undir það en stjórnmálin sjálf hafi þó beðið nokkurn hnekki í þessu máli öllu.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru furðulostnir yfir frétt í Financial Times um lánið frá Bretum og bíða líkt og fjölmiðlar eftir fréttum af samningum við Alþjóða gjaldeyrðissjóðinn.
Valgerður segir erfitt að tjá sig um Bretalánið fyrr en íslensk stjórnvöld hafi staðfest þessar upplýsingar. Það hafi komið fram hjá tveimur prófessorum að ríkið beri ekki ábyrgð umfram það sem hafi verið í tryggingasjóðum bankanna. Það sé fyrsta spurningin hvort við séum að ganga skrefi lengra en við þurfum. Það þurfi að fá úr þessu skorið.