Til varnar Íslandi

Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, hefur í dag tekið myndir af íslenskum …
Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, hefur í dag tekið myndir af íslenskum „hryðjuverkamönnum." mbl.is/Golli

Yfir 9700 manns hafa skrifað undir yfirlýsingu á vefnum undir  yfirskriftinni: Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn. Hópurinn, sem kallar átakið Indefence of Iceland, hvetur nú landsmenn til að skrifa undir yfirlýsinguna á vefnum.

Í fréttatilkynningu frá hópnum segir að það sé brýnt að Íslendingar og íslensk stjórnvöld krefjist afturköllunar á þeirri aðgerð breskra stjórnvalda að setja íslenska aðila á lista yfir harðstjórnir. Til þess að ná þessu markmiði þurfa Íslendingar að kynna málstað sinn fyrir bresku þjóðinni, sem gerir sér ef til vill ekki grein fyrir því hversu óeðlilegt var að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum og hversu alvarlegar afleiðingarnar hafa verið.

Þá segir að með yfirlýsingunni sé þess farið á leit við bresku þjóðina að hún standi með okkur í þeirri viðleitni að binda enda á diplómatískar erjur milli ríkisstjórnar landanna, til að hægt verði að koma í veg fyrir frekara efnahagslegt tjón í löndunum báðum og þannig að hægt verði að hefja uppbyggingu og bæta það tjón sem orðið hefur.

Yfirlýsinguna má lesa á vefsíðunni www.indefence.is og þar getur fólk bætt nafni sínu við á undirskriftarlista sé það sammála inntaki yfirlýsingarinnar.

Enn fremur er fólk hvatt til að senda skilaboð til bresku ríkisstjórnarinnar í formi ljósmynda, sem vistaðar verða á sömu vefsíðu. Fyrirhugað er að afhenda breskum stjórnvöldum yfirlýsinguna og undirskriftalistann í viðurvist fjölmiðla til að vekja athygli á réttmætum málstað Íslendinga.

Á síðunni má þegar sjá fjölda ljósmynda af venjulegum Íslendingum með skilti sem segja „Ég er ekki hryðjuverkamaður“, „Þetta er ekki mér að kenna“ og fleira í þeim dúr.

Vonast er til að vefsíðan muni vekja athygli í Bretlandi og kynni þannig málstað Íslendinga.

Í dag hefur Þorkell Þorkelsson, ljósmyndari, boðið Íslendingum að koma í húsnæði Sönglistar í Borgartúni 1 og mynda sig með „vopnin“ sín sem geta verið verkfæri, fartölvur eða annað sem fólk notar við vinnu. Segist Þorkell gera þetta til að hæða og benda á fáránleikann í því að beita hryðjuverkalögum gegn Íslendingum.

Yfirlýsingin til varnar Íslandi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert