Gjöfulasta laxveiðitímabili í manna minnum er að ljúka. Þótt veiði í ám með náttúrulega laxastofna hafi lokið í september, hefur verið kastað fyrir laxa allt til þessa dags í ánum sem hafgönguseiðum er sleppt í, eins og í Rangárnar og Tungufljót í Biskupstungum.
Blaðamaður heyrði í Orra Vigfússyni, formanni NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, en við lok vertíðarinnar hefur hann iðulega litið yfir veginn. Nú er hann að vonum lukkulegur með veiðina sem hann segir verða um 82.000 laxa.
„Árið 2005 var metveiði, en þá var heildarveiðin 55.000 laxar,“ segir Orri. „Gamla metið var sett árið 1978 en þá var nánast ekkert um seiðasleppingar í ár og veiddum fiskum sjaldnast sleppt frjálsum. Á seinni árum hefur orðið algengara að „veiða og sleppa“ og svo eru svokallaðar hafbeitarár farnar að gefa gríðarlega veiði.“
Orri segir tölfræðinga NASF hafa tekið saman veiðitölur úr ám víða um land og ef skoðaðar eru ár sem byggja á seiðasleppingum, þá telja þeir að í þeim hafi veiðst um 28.000 laxar. Í öðrum ám hafi veiðst um 52.000 laxar – sem er svipuð veiði í þeim og árið 1978. Ef hafbeitarár eru undanskildar hefur það aukist verulega á þessum tíma að löxum sé sleppt, eða úr 8% í 25%.
„Óvenju margir stórlaxar veiddust á Íslandi í sumar, og einnig í nágrannalöndunum, en þeir hafa nú verið friðaðir fyrir úthafsveiðum í 15 ár. Ýmislegt bendir til þess að ástandið í úthöfunum sé gott.
Laxveiðiárnar á Norðurlandi koma tiltölulega vel út, en suðvesturhornið, Borgarfjörður og Mýrarnar gáfu afar góða veiði.
Hafbeitarárnar virðast vera að skila hærra og hærra endurkomuhlutfalli úr hafi. Jafnvel er rætt um 5% og meira í sumum stöðvunum. Hafnará er talin hafa skilað 7,5% endurkomu laxa í sumar og haust.“