„Við munum ekki láta kúga okkur"

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/hag

„Við munum ekki láta kúga okkur í þessu máli," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í Kastljósi Sjónvarpsins þegar hann var spurður hvor Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti það sem skilyrði fyrir efnahagsaðstoð, m.a. að kröfu Breta, að gert verði upp við Breta vegna Icesave-reikninga Landsbankans.

Geir sagði einnig, að sjóðurinn vildi gjarnan að þessi mál yrðu komin á hreint áður en lengra er haldið. Hann sagði, að viðræðurnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væru enn könnunarviðræður, sem snérust um að greina stöðuna og hvernig Íslendingar geti komist sem fyrst út úr því ástandi, sem við blasi vegna minnkandi þjóðarframleiðslu, vaxandi atvinnuleysi, auknum ríkissjóðshalla og óvissu með gengi krónunnar og verðbólguþróun.

Geir vildi ekki greina frá viðræðunum í smáatriðum. „Ég get þó sagt, að það sem verið er að tala um í þessu sambandi eru aðgerðir á sviði efnahagsmála, ríkisfjármál, peninga- og gengismál, endurskipulagning bankakerfisins, sem er allt hlutir sem þarf að horfast í augu við og við þurfum að gera, annað hvort einir eða í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn," sagði Geir.

Hann sagði, að fulltrúar sjóðsins væru hér til að leggja Íslendingum lið en ekki að búa til ný vandamál. Ef leitað yrði formlega eftir aðstoð sjóðsins þá byggðist hún á því að hann veiti lán, til að koma gjaldeyrismarkaði Íslendinga í gang, veiti síðan ákveða fyrirgreiðslu, sem yrði varasjóður, og ráðgjöf varðandi efnahagsstefnuna.

Þegar Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Kastljóss, spurði  hvort skattar yrðu hækkaðir, svaraði Geir að slíkt væri ekki hægt að útiloka. „Það þarf hugsanlega að auka tekjur í ríkissjóð  en það gæti einnig þurft að draga úr útgjöldum. Allt eru þetta hlutir sem þarf að horfa á fordómalaust eins og staðan er núna," sagði Geir.  

Spurning hvort við eigum eitthvað inni hjá Bretum

Geir sagði, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki fallist á þá lögskýringu að ríkið beri ótvíræða ábyrgð á innistæðum á Icesave-reikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Hins vegar sé um þetta ágreiningur og þann ágreining verði að leysa með skynsamlegum hætti til að stefna ekki samskiptum Íslands við Bretland og Holland í uppnám.

„Það eru fleiri hliðar á þessu en sú lögfræðilega og við viljum auðvitað komast hjá miklum hnökrum í samskiptum, sérstaklega við Bretana og við eigum mikið undir því að okkar samskipti geti gengið vel. En það má reyndar líka halda því fram, að þjóð, sem setur okkar á lista með hryðjuverkamönnum; setur eitt fyrirtæki á Íslandi í félagsskap með al-Qaeda, talibönum, Súdan, Norður-Kóreu og fleiri slíkum aðilum, allskyns fjöldamorðingjum, slíkir aðilar eiga kannski ekkert sérstakt inni hjá okkur," sagði Geir. 

Hann sagði að allt yrði gert til að reyna að koma í veg fyrir að uppgjör við breska sparifjáreigendur lendi ekki á íslenskum almenningi. Það gæti þurft að semja um einhverja dómstólameðferð og um það væri m.a. verið að ræða núna. Breskir embættismenn hafa í dag átt fundi með íslenskum embættismönnum um málið.

Sigmar spurði hvort það kæmi til greina að verða við því ef Bretar heimtuðu að Íslendingar borguðu 200 milljarða króna. „Ekki ef ég fengi að ráða þessu einn," sagði Geir.

Hann sagði að ríkisstjórnin vildi koma málinu í skynsamlegan farveg, losna við að greiða féð og sjá síðan til hvort eignir Landsbankans í Bretlandi gætu nýst til að greiða reikninginn. „Þá þurfum við að eiga samstarf við bresk yfirvöld um að vernda þessar eignir þannig að þær eyðileggist ekki og geti komið upp í reikninginn. Þess vegna þurfum við að tala saman og vera í samstarfi," sagði Geir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert