Endurtaki sig aldrei

Grétar Þorsteinsson, fráfarandi forseti ASÍ.
Grétar Þorsteinsson, fráfarandi forseti ASÍ.

Grétar Þorsteinsson, fráfarandi forseti ASÍ, segir eðlilegt að helstu gerendur séu látnir standa reikningsskil gerða sinna, þegar hrun íslenska bankakerfisins er annars vegar. Hitt sé mikilvægara að leita leiða til að atburðarás síðustu vikna endurtaki sig aldrei.

Grétar setti ársfund ASÍ í morgun og ávarpaði þá fundinn.

Hann sagði nauðsynlegt að lækka vexti hratt og í stórum skrefum. Jafnframt þurfi að styrkja gegni krónunnar til að koma í veg fyrir óðaverðbólgu. Þetta sagði hann ekki takast nema að traust umheimsins verði endurbyggt, Ísland sé í augum umheimsins rúið trausti.

„Það að afneita vandamálunum og gera lítið úr þeim gerir bara illt verra,“ sagði Grétar. Hann ítrekaði nauðsyn þess að fá aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, henni bæri að fagna.

Hann sagðist þó óttast að meira þurfi til. Eina færa leiðin sé sú að Ísland sæki eftir aðild að ESB, fái úr því skorið hverra kosta er völ og svo fari málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í beinu framhaldi eigi að sækja um aðild að evrópska myntsamstarfinu, sem auki trúverðugleika aðgerða stjórnvalda og geti hjálpað til við að verja fastgengisstefnu á næstu árum.

„Ég er þeirrar skoðunar að það gagnist hagsmunum okkar til fulls að stíga skrefið til fulls, og að við höfum í raun ekkert annað val,“ sagði Grétar.

Hann gerði íbúðalánasjóð einnig að umtalsefni og sagðist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda, hvernig ástandið væri á mörgum heimilum í landinu ef bönkunum hefði tekist það ætlunarverk sitt að ýta sjóðnum út af húsnæðislánamarkaði.

Þá sagði hann mikilvægt að tryggja hagsmuni lífeyrisþega og lífeyrissjóða. Endurskoða þurfi lífeyriskerfið, svo að allir landsmenn sitji við sama borð, sama hvort þeir eru launþegar eða alþingismenn. Hann sagði óásættanlegt óréttlæti felast í núverandi kerfi. Áföll lífeyrissjóða á opnum markaði valdi skerðingu lífeyrisréttinda hjá sjóðfélögum. Áföll hjá opinberum sjóðum verði hins vegar til þess að skattgreiðendur fái bakreikninginn vegna þess. Sjóðfélagar í frjálsum lífeyrissjóðum og skattgreiðendur séu að stofni til sama fólkið, og því óréttlátt að það taki á sig lífeyrisskerðingu og auknar skattbyrðar vegna þessa.

Grétar sagði þá hagstjórn sem horft hafi verið upp á, og ítrekað hafi verið varað við á vettvangi ASÍ, hafa beðið skipbrot. Nýfrjálshyggjuna sagði hann hafa beðið skipbrot. Nú þurfi að hafa hugsjónir og grunngildi verkalýðshreyfingarinnar í hávegum.

Grétar ræddi það líka hvers vegna hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs sem forseti ASÍ. Hann sagði þá ákvörðun ákveðinn létti, þó hann hefði viljað yfirgefa þá vakt við betri aðstæður. „Maður kemur manns í stað,“ sagði hann um það. Hann þakkaði samstarfið fólki sem á sæti í miðstjórn og starfar á skrifstofu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert