Margir þeirra sem til máls tóku í umræðum um norrænt samstarf á danska þinginu í dag lýstu yfir áhuga og vilja til stuðnings við Ísland. Þetta kemur fram í frétt frá Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni.
Line Barfod, fulltrúi Einingarlistans, ræddi bæði um fjármálakreppuna á Íslandi almennt og um þau vandamál sem um 1.200 íslenskir stúdentar í Danmörku standa nú frammi fyrir vegna efnahagsástandsins. Þá sagði hún það hafa verið ógnvekjandi er Íslendingar snéru sér til Rússa í í stað norrænna nágranna sinna.
Bertel Haarder menntamála- og samstarfsráðherra Danmerkur sagðist ekki geta lofað því að íslenskir námsmenn fengju sérmeðferð vegna þess ástands sem nú sé uppi en sagði Dana almennt vilja aðstoða Íslendinga.
Þingmenn Danska þjóðarflokksins hvöttu einnig til að Danir sýndu Íslendingum hve góðir grannar þeir væru á krepputímum.
Einnig kom fram í máli dönsku þingmannanna að þeir væru almennt ánægðir með samræmd norræn viðbrögð við hnattvæðingunni. Sögðust margir þeirra þó telja að auka hefði þurft fjármagn til samstarfsins, til að koma í veg fyrir niðurskurð í öðrum málaflokkum þess eins og til að mynda menningarmála.