Ríkið dæmt til að greiða TM 130 milljónir

Hús Þjóðminjasafnsins eftir endurgerðina.
Hús Þjóðminjasafnsins eftir endurgerðina. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða Tryggingamiðstöðinni (TM) rúmar 130 milljónir með vöxtum frá árinu 2005. Málið tengist endurbótum á byggingu Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu í Reykjavík en kostnaður við bygginguna varð mun hærri en upphaflegur verksamningur gerði ráð fyrir.

Málavextir eru þeir, að félagið Kraftvaki ehf. tók að sér árið 2001 að gera endurbætur á byggingu Þjóðminjasafnsins. Voru upphafleg verklok voru áætluð 1. október 2002. Í samræmi við útboðsskilmála gaf Tryggingamiðstöðin út verkábyrgð fyrir Kraftvaka í tengslum við verkið.

Þegar líða tók á verktímann fór að halla undan fæti hjá Kraftvaka, sem sagði sig á endanum frá verkinu með samningi við Framkvæmdasýslu ríkisins.

Í kjölfar þess gerðu íslenska ríkið og TM með sér samkomulag í desember 2002 sem miðaði að því að tryggja framgang verkefna samkvæmt eldri verksamningi ríkisins og Kraftvaka svo unnt yrði að ljúka verkinu. Hafði samningurinn meðal annars að geyma ákvæði um skyldur beggja aðila í því sambandi, svo og ákvæði um uppgjör milli T og íslenska ríkisins vegna verksins.

Í samningnum kom fram að TM tæki að sér nánar tilgreindar skyldur Kraftvaka sem lutu einkum að stjórnun og rekstri vinnustaðarins, auk þess sem Framkvæmdasýsla ríkisins fengi framselda samninga undirverktaka félagsins.

Verkinu lauk ekki fyrr en í september 2004 eða nærri 21 mánuði eftir gerð samkomulagsins og kostnaður varð hærri en upphaflegi verksamningur ríkisins og Kraftvaka gerði ráð fyrir en hann hljóðaði upp á 430 milljónir króna. Ríkið og TM voru ekki á eitt sáttir um ástæður þess að svona fór eða hvor þeirra ætti að bera ábyrgðina en niðurstaðan var sú að TM höfðaði mál og krafðist 130 milljóna króna frá ríkinu. Á þá kröfu hefur Hæstiréttur nú fallist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert