Íslenska ríkið var í dag dæmt af Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða útgerðarmanni rúmlega 25 milljónir kóna í skaðabætur, þar sem sjávarútvegsráðuneytið notaði ekki rétt viðmiðunartímabil við úthlutun aflaheimilda í skötusel.
Um var að ræða úthlutaðar aflaheimildir fiskveiðiárin 2001/2002 og 2002/2003.
Útgerðarmaðurinn keypti bát árið 2000 en með í kaupunum fylgdi skötuselsúthald af af öðru skipi. Maðurinn áformaði að hefja veiðar á skötusel og löngu, en þessar tegundir voru á þeim tíma utan kvóta. Hann ætlaði sérstaklega að einbeita sér að veiðum á skötusel í net, enda taldi hann að sú tegund hefði verið vannýtt og að möguleikar til að vinna sér inn veiðireynslu áður en tegundin yrði færð inn í kvótakerfið væru miklir.
Útgerðarmaðurinn var frumkvöðull að því að gera skip sérstaklega út til veiða á skötusel. Hann hóf skötuselsveiðar í maí 2000 og gerði út frá Þorlákshöfn. Veiðarnar gengu mjög vel og skötuselsafli hans var samtals tæplega 360 tonn frá maí til ársloka.
Maðurinn hélt áfram veiðum veturinn 2001, sem hann segir að hafi gengið sæmilega.
5. júní 2001 gaf sjávarútvegsráðherra út reglugerð um aflamark fyrir fiskveiðiárið 2001/2002 en þá var ekki sett aflamark á skötusel. Með fréttatilkynningum frá sjávarútvegsráðuneytinu sama dag hafi komið fram að ráðuneytið teldi ekki ástæðu til þess að verða við tilmælum Hafrannsóknarstofnunar um að setja aflamark á keilu og löngu.
Ný reglugerð var svo gefin út af sjávarútvegsráðuneytinu 16. ágúst 2001 um aflamark fyrir fiskveiðiárið 2001/2002, sem kom í stað hinnar fyrri.
Með nýju reglugerðinni var gerð sú breyting að takmörkun á veiðum tók til nýrra tegunda, keilu, löngu og skötusels, sem ekki höfðu áður verið bundnar ákvæðum um leyfilegan heildarafla. Í ákvæði til bráðabirgða var kveðið á um það að fiskiskipum, sem höfðu veiðileyfi með almennu aflamarki og veiðireynslu á tímabilinu 1. júní 1998 til 31. maí 2001, skyldi úthlutuð aflahlutdeild í þessum tegundum á grundvelli veiðireynslu.
Við úthlutun aflaheimilda í skötusel var ekki tekið tillit til veiðireynslu mannsins sumarið 2001 og taldi héraðsdómur að með því hefði verið brotið á rétti mannsins.
Ríkissjóði ber því að greiða rúmar 25 milljónir króna í skaðabætur, með vöxtum frá 21. nóvember 2003 til 27. janúar 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Að auki var ríkissjóður dæmdur til að greiða 1,3 milljónir króna í málskostnað.