Samtal Árna og Darlings

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen.

Greint var frá innihaldi samtals sem Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra átti  við breska starfsbróður sinn Alistair Darling í síma 7. október í Kastljósi í kvöld. Darling sagði m.a. að það sem hafi verið sagt um stöðu Landsbankans hafi ekki verið rétt.

„Ég verð að segja eins og er að þegar ég hitti kollega þína og þá hina, þá í raun kemur í ljós að það sem okkur var sagt reyndist ekki rétt. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af stöðu bankans í London og þeir héldu áfram að segja að ekkert væri að óttast. Og þú veist, í þeirri stöðu sem við erum í núna, þá er hér í þessu landi fjöldi fólks sem lagði inn fé og kemur til með að tapa ansi miklu peningum og það fólk mun eiga erfitt með að skilja hvernig það gerðist,“ sagði Darling við Árna. 

Darling var þarna að vísa til fundar sem hann átti með Björgvini G. Sigurðssyni, viðskiptaráðherra, í Lundúnum í september. 

Síðar í samtalinu sagði Árni það væri mögulegt að ekki væri nægilega mikið fé til í tryggingasjóði innlána til að tryggja innistæður breskra sparifjáreigenda.

„Það er mögulegt að það ekki sé nægilegt fé í sjóðnum; er það rétt?“ spyr Darling. „Já, reyndar er það alveg mögulegt,“ svarar Árni.

Lesið var upp afrit af símtali þeirra Árna og Darlings, sem hafði verið þýtt yfir á íslensku

Fram hefur komið að Darling hafi skilið Árna þannig að íslensk stjórnvöld hygðust ekki bæta breskum sparifjáreigendum, sem áttu innistæður á reikningum Icesave í Bretlandi, tap sitt.

Samtalið í heild:

Samtal þeirra Árna og Darling er eftirfarandi, eins og það birtist í Kastljósi Sjónvarpsins: 

Árni M. Mathiesen: Árni Mathiesen hér, fjármálaráðherra.

Alistair Darling: Sæll, við hittumst fyrir fáeinum mánuðum, vikum víst.

ÁMM: Nei, reyndar höfum við aldrei hist; þú hittir viðskiptaráðherrann.

AD: Einmitt, afsakaðu.

ÁMM:  Ekkert að afsaka.

AD: Þakka þér fyrir að taka símann. Eins og þú veist stöndum við frammi fyrir miklum vandræðum vegna Landsbankans; hann er með útibú hér og á innlánsreikningum þess eru um fjórir milljarðar punda. Því hefur verið lokað og ég þarf að vita nákvæmlega hvað þið hyggist gera í því máli. Gætir þú útskýrt það fyrir mér?

ÁMM: Já, þetta var útskýrt í bréfi sem við sendum í fyrrakvöld frá viðskiptaráðuneytinu. Eftir það höfum við sett ný lög um forgang innistæðna og við höfum veitt FMA, íslenska fjármálaeftirlitinu, heimild til að fara í bankana; sambærileg löggjöf og þið hafið í Bretlandi og Landsbanki er nú undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og þeir eru að vinna að því að hvernig eigi að gera þessa hluti en ég held að þessi löggjöf hjálpi til við að greiða úr þessum vanda.

AD: Hvað með eigendur innistæðna hjá ykkur sem eiga innistæður í útibúunum í London?

ÁMM: Við höfum tryggingasjóð innlána samkvæmt Directivinu og hvernig hann starfar er útskýrt í bréfinu og sömuleiðis loforð stjórnvalda um stuðning við sjóðinn.

AD: Svo réttindi almennings í þessu efni eru að ég tel sextán þúsund pund; og er það upphæðin sem fólk fær?

ÁMM: Tja, ég vona að það verði tilfellið. Ég get ekki kveðið skýrt úr um það eða tryggt það núna en vissulega vinnum við að því að leysa úr þessu máli. Við viljum sannarlega ekki hafa þetta hangandi yfir höfði okkar.

AD: Fólk spyr okkur nú þegar hvað sé um að vera þarna. Hvenær verðið þið búnir að greiða úr þessu?

ÁMM: Eiginlega get ég ekki sagt um það. En ég tel að best sé að fjármálaeftirlitið hjá ykkur sé í sambandi við Fjármálaeftirlitið hér um hvernig tímasetningin á þessu verður.

AD: Skil ég það rétt að þið tryggið innistæður íslenskra sparifjáreigenda?

ÁMM: Já, við tryggjum innistæður í bönkum og útibúum banka hér á Íslandi.

AD: En ekki í útibúum utan Íslands?

ÁMM: Nei, ekki utan við það sem nú þegar hefur verið tekið fram í bréfinu sem við sendum.

AD: En er það ekki í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?

ÁMM: Nei, það teljum við ekki og reyndar tel ég það  vera í samræmi við það sem aðrar þjóðir hafa verið að gera undanfarna daga.

AD: Jæja, við lentum ekki í slíkum vanda með Northern Rock. Ekki skipti máli hvað maður hafði sparifé sitt. Við ábyrgðumst sparnað fólks.

ÁMM: Nú, það var allavega í byrjun deilt um það en ég þykist vita að þið hafið svo greitt úr því.

AD: Vandinn - og ég hef skilning á vanda ykkar - en vandinn er að hér hafið þið fólk sem lagði inn fé í bankann hér og það kemst svo að því nú að þið hafið ákveðið að gæta ekki hagsmuna þess. Það spillir ákaflega mikið fyrir Íslandi síðar meir.

ÁMM: Já við gerum okkur það ljóst og við reynum eftir okkar fremsta megni að það verði ekki vandamál. Við erum í afar, afar erfiðri stöðu.

AD: Já, ég átta mig á því.

ÁMM:  Og bara í þessari viku, þar sem við getum ekki leyst úr vandanum innanlands þá getum við lítið gert í því, sem gerist utan landsteinanna. Við verðum því fyrst að leysa úr málum hér innanlands og þá reynum við allt í okkar valdi og ég persónulega er bjartsýnn á að lögin sem  samþykkt voru í gærkvöldi styrki þann þátt í þessu. Og auðvitað gerum við okkur ljóst hvað gæti gerst og það viljum við ekki.

AD: Já

ÁMM: En það er líka svo, ráðherra, að við höfum mánuðum saman reynt að ræða við alla nálægt okkur og reynt að segja þeim að við séum í vanda og beðið um stuðning og raunin hefur verið sú að stuðningurinn hefur verið mjög lítill.

AD: Ég veit það en ég verð að segja eins og er, að þegar ég hitti kollega þína og þá hina, þá í raun kemur í ljós að það sem okkur var sagt reyndist ekki rétt. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af stöðu bankans í London og þeir héldu áfram að segja okkur að ekkert væri að óttast. Og þú veist, í þeirri stöðu, sem við erum í núna, þá er hér í þessu landi fjöldi fólks sem lagði inn fé og það fólk kemur til með að tapa ansi miklu af peningum og það fólk mun eiga erfitt með að skilja hvernig það gerðist.

ÁMM: Ég vona að það verði ekki raunin. Ég var ekki á fundinum svo ég get ekki sagt neitt...

AD: Ég veit það reyndar. Getur þú sagt mér hvort tryggingasjóðurinn, sem þú vísar til, ráði yfir fé til útborgunar?

ÁMM: Eitthvað fé er í honum en eins og háttað er um flesta þessa sjóði þá er það takmarkað í samanburði við aðsteðjandi kröfur.

AD: Einmitt, svo þú veist það ekki. Ég þarf að vita þetta svo ég viti hvað ég geti sagt fólki. Það er mögulegt að ekki sé nægjanlegt fé í sjóðnum; er það rétt?

ÁMM: Já reyndar er það alveg mögulegt.

AD: Það er hræðileg staða.

ÁMM: Já, við erum í hræðilegri stöðu hér og lögin sem við stóðum að því að samþykkja síðastliðna nótt eru neyðarlög og eins og ég segi þá erum við að reyna að treysta ástandið hér innanlands svo við getum mætt aðstæðum annarstaðar.

AD: Ég tek því þá sem svo að loforðið sem Landsbankinn gaf okkur um að hann fengi 200 milljónir punda í reiðufé sé einnig fyrir bí?

ÁMM: Já, þeir fengu ekki það fé.

AD: Veistu, ég skil svo sem afstöðu þína. Þú verður að gera þér ljóst að orðspor þjóðar þinnar bíður hræðilegan hnekki.

ÁMM: Já, við gerum okkur það ljóst. Við gerum allt í okkar valdi stendur til að komast hjá því. Við þurfum að tryggja ástandið innanlands áður en við getum lofað þér einhverju öðru.

AD: Auðvitað, ég væri þakklátur fyrir alla aðstoð sem þú getur veitt.

ÁMM: Sjálfsagt

AD: Vissulega... Við yrðum að útskýra fyrir fólki hér það sem hefur gerst. Það mun auðvitað, án efa, hafa afleiðingar í för með sér fyrir aðra. Þetta er afar afar erfið staða þar sem fólk taldi sig tryggt en kemst svo að því að tryggingasjóðurinn er innistæðulaus.

ÁMM: Já, eins og ég sagði í bréfinu...

AD: Gott og vel, ég þigg alla þá aðstoð sem þú getur veitt.

ÁMM: Já, við þurfum að koma á sambandi milli fjármálaeftirlits þjóðanna út af...

AD: Já, ég veit að þau verða í sambandi. Ég veit að þú varst ekki á fundinum og tókst ekki þátt í honum. Við efuðumst um það sem okkur var sagt og ég óttast að við höfum haft rétt fyrir okkur.

ÁMM: Já, það má vera.

AD: Hvað sem því líður vertu endilega í sambandi. Allt sem þið getið gert til hjálpar yrði að miklu gagni.

ÁMM: Já ef það er eitthvað ykkar megin, verið þá í sambandi.

AD: Gott og vel, ég geri það. Þakka þér kærlega fyrir.

ÁMM: Þakka þér, sömuleiðis.

 Viðtalið á vef RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert