Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, varaði við því á aðalfundi LH fyrr í dag að halda að vegna þess að fiskverð hefði hækkað væri allt í lagi í sjávarútveginum. Tekjur hefðu ekki aukist til jafns við gengisfallið og þar með hækkun skulda auk þess sem allur kostnaður hefði aukist gríðarlega milli ára.
Örn benti á að mánudaginn fyrir ári, 22. október, hefði gengisvísitalan verið 117 stig, breskt punt kostað 125 krónur og evran 87krónur. Sl. mánudag hefði gengisvísitalan verið 201 stig, pundið kostað 195 krónur og evran 150 krónur. Hækkun gengisvísitölu um 72% sem svaraði til sambærilegrar hækkunar erlendra lána sem hvíldu á langflestum útgerðum smábáta.
„Á sama tíma í fyrra var meðalverð á þorski á mörkuðunum 260 krónur og fyrir ýsuna fengust 143 krónur. Nú ári síðar sl mánudag var þorskur seldur á nánast sama verði eða 266 krónur en ýsan gaf okkur 205 krónur,“ sagði Örn.