Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs samþykkti í morgun að leggja til að viðskiptanefnd Alþingis kanni þegar í stað lagalegar forsendur þess að hægt verði að kyrrsetja tímabundið allar eignir innlendra fjármálafyrirtækja sem komist hafa í þrot, eigenda þeirra og tengdra aðila hér á landi og setja bann við hvers kyns ráðstöfun, sölu, veðsetningu o.s.frv. Einnig að leggja hald á og eftir atvikum heimta til landsins eignir sömu aðila erlendis, allt í því skyni að gæta hagsmuna þjóðarbúsins, að því er segir í ályktun þingflokks VG.
Grunsemdir um undanskot verði meðhöndluð sem sakamál
„Slíkar tímabundnar frystingarheimildir er nærtækast að taka sem viðbótarákvæði inn í neyðarlögin frá mánudeginum 6. október og stefna að lögfestingu þeirra í næstu viku. Við lagasetninguna yrði sérstaklega höfð hliðsjón af þeirri opinberu rannsókn sem nú er að fara af stað á vegum sérskipaðs ríkissaksóknara. Leiki minnsti grunur á að eignum hafi með beinum hætti verið skotið undan á undangengum mánuðum og misserum ber að sjálfsögðu að meðhöndla slík mál tafarlaust sem sakamál," að því er segir í ályktun VG.