Eftir Önund Pál Ragnarsson
Á morgun verður samþykkt á ársfundi ASÍ ályktun um efnahags- og kjaramál. Við fyrri umræðu um ályktunina í dag kom fram tillaga um breytingar og viðbætur við ályktunina, frá starfsgreinafélaginu Afli.
Á meðal þess sem fram kemur í tillögunni er að ársfundurinn krefjist þess að óháður aðili, utan fjármálaeftirlits, seðlabanka eða stjórnvalda, verði fenginn til að framkvæma ýtarlega rannsókn á atburðum liðinna vikna í fjármálakerfi landsins og aðdraganda þeirra.
Vilja fulltrúar Afls að rannsakendum verði gefið vald til yfirheyrslna, húsleita og annarra rannsóknarúrræða sem lögregla hefur. „Jafnframt verði tryggt að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir verði kölluð til ábyrgðar vegna þess tjóns sem unnið hefur verið á íslensku samfélagi,“ segir í tillögunni.