Yfirlýsing viðskiptaráðherra

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands sagði í samtali sínu við Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra að þegar hann hitti Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra í London í september hafi hann sagt um stöðu Landsbankans að ekkert væri að óttast. Björgvin hefur gefið út yfirlýsingu um þessi orð Darling.

Yfirlýsingin frá Björgvini hljómar svona í heild sinni:

„Vegna fundar sendinefndar Viðskiptaráðuneytis, Fjármálaráðuneytis og Fjármálaeftirlits með Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands 2. september síðastliðinn og frá var sagt í Kastljósi í kvöld er rétt að fram komi að efni fundarins var fyrst og fremst hvernig mætti breyta útibúi Landsbankans í Bretlandi í dótturfélag. Slík niðurstaða hefði losað íslenska tryggingasjóðinn undan hugsanlegum skuldbindingum við breska sparifjáreigendur. Viðskiptaráðherra hefur oft og ítrekað vísað til þessa í opinberri umræðu síðustu daga.

Íslensk og bresk stjórnvöld hafa um nokkurt skeið verið sammála um mikilvægi þessa og snerist fundurinn um hvernig ná mætti saman um þessa lausn, sem fjármálaeftirlit beggja landanna höfðu unnið að ásamt Landsbanka Íslands. Var það ferli vel á veg komið þegar bankinn fór í þrot.

Fram kom á fundinum að fjármálaeftirlit beggja landa hafa verið sammála um að færa þurfi innlán Landsbanka í Bretlandi til þarlends dótturfélag og þar með undir innistæðuvernd breskra laga. Lögð var áhersla á að framkvæma þyrfti slíka ráðstöfun á raunsæjan hátt. Stjórnvöld í báðum löndum þyrftu að vinna þétt saman að þessu. Íslensk stjórnvöld væru mjög áfram um að leggja sitt af mörkum til að finna ásættanlega lausn.

Viðskiptaráðherra hélt engu fram um stöðu Landsbankans að öðru leyti í samtali sínu við Allistair Darling.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka