Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ómar Óskarsson

„Ég er mjög hugsi yfir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og tel að þessi mál séu komin í mikið óefni og mjög þrönga stöðu. Mér finnst það gagnrýnivert að mál skuli hafa þróast þannig í höndum ríkisstjórnarinnar síðustu þrjár vikur að hún meti það sem svo að ekki sé um neina aðra kosti að ræða,“ segir Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um drög að samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF.

Steingrímur segist uggandi vegna skilmála IMF og kringumstæðna málsins. Þingflokkur VG hittist á fundi í dag til  að ræða ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

„Það er alveg ljóst að við erum mjög gagnrýnin á margt í þessu, bæði hvað varðar ferlið, vinnubrögðin og ekki síður innihaldið í drögunum.“

Steingrímur segir að eflaust megi halda því fram að í lokin hafi ekki verið aðrir kostir en að leita til IMF, enda hafi ríkisstjórnin ekkert unnið í öðrum hlutum.

„Það gagnrýni ég harðlega og hef gert allan tímann. Menn hefðu átt að reyna að halda fleiri dyrum opnum, eins og þeim sérstaklega að reyna að þræða upp samstarf við hin Norðurlöndin. Ég hefði talið miklu æskilegra að ná saman einhverjum norrænum pakka, til dæmis undir forystu Norðmanna. En þetta er allt á forsendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og undir hans stjórn og hans samræmingu og á grundvelli hans skilmála.“

Steingrímur segir þetta alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hún hafi kosið að vinna þetta ein.

„Svokallað samráð við okkur í stjórnarandstöðunni er eingöngu til að upplýsa okkur um þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin hefur tekið.  Þannig að við berum að sjálfsögðu ekki á þessu neina pólitíska ábyrgð. Það er auðvitað mjög ámælisvert líka hve lítið Alþingi hefur komið að þessu og nánast ekki neitt. Þannig að ríkisstjórnin tekur sér hér geysilega mikið vald. Ég hefði talið að Alþingi hefði þurft að koma beint að þessu máli með sjálfstæðum hætti.“

Steingrímur segist uggandi vegna þeirra efnahagsaðgerða sem ríkisstjórnin hefur boðað og eru hluti af samkomulaginu við IMF.

„Það var rætt um ýmsa þætti sem verða afdrifaríkir og varða meðal annars gjaldmiðlamál, vexti, áform í ríkisfjármálum, stöðu aðila vinnumarkaðarins, stöðu á vinnumarkaði og fleira. Og síðan er auðvitað þessi tenging við uppgjör mála við Breta og Hollendinga sem ég hef gríðarlegar áhyggjur af. Það er þarna óbein tenging, þó að reynt sé að gera lítið úr því en hún er því miður til staðar og af því hef ég miklar áhyggjur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert