Áfram rætt við Rússa um lán

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna ákvörðunina um …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna ákvörðunina um að óska eftir formlegum viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í dag að reiknað væri með því að áfram yrði rætt við Rússa um lánveitingu. Umsókn um formlegt samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kynni þó að hafa það í för með sér, að rætt verði um lægri upphæð en áður var gert ráð fyrir.

Miðað er við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn láni Íslendingum 2 milljarða dala og þar af verði 830 milljónir dala, jafnvirði 100 milljarða króna, til útborgunar þegar formlegt samkomulag liggur fyrir eftir um 10 daga. Sjóðurinn telur að erlend lánsfjárþörf íslenska ríkisins nemi um 6 milljörðum dala á næstu tveimur árum og er reiknað með að Norðurlandaþjóðir, Japanar og Rússar brúi það bil, 4 milljarða dala.

Upphaflega var rætt um að Rússar myndu lána Íslendingum 4 milljarða evra og hafa íslenskir og rússneskir embættismenn átt fundi um málið í Moskvu. Geir sagði, að samband hefði verið haft við japanska fjármálaráðuneytið og þar hefðu menn verið mjög vinsamlegir en málið væri ekki komið lengra. Þá sagðist hann telja eðlilegt að hugsanleg lánveiting Rússa tengdist þessu máli. 

Geir sagði að lánveitingu gjaldeyrissjóðsins væri ætlað að greiða fyrir því að gjaldeyrismarkaður geti starfað með eðlilegum hætti og hér myndist eðlilegt gengi. „Það mun blása lífi í efnahagsstarfsemina, sem nú er mjög hratt að kólna. Þar með skapast fleiri störf, þar með skapast tekjur, skatttekjur o. s. frv.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert