Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að ágreiningur væri milli Íslands og Bretlands um lagatúlkun varðandi ábyrgð á innistæðum á Icesave innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi. Ljóst væri að kröfur væru uppi um meira, en stjórnvöld treystu sér til að skuldbinda þjóðina til að standa undir.
„Við viðurkennum að við þurfum að fara að réttum lögum en það er ágreiningur um lagatúlkun," sagði Ingibjörg Sólrún. „Ég tel að tíminn muni vinna með okkur," bætti hún við.
„Við föllumst ekki á lögskýringar Breta í þessu máli," sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Hann sagði alveg ljóst, að íslenska ríkið muni ekki taka erlend lán til að greiða skuldir bankanna. Um hugsanlegar skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart breskum sparifjáreigendum giltu hins vegar reglur Evrópska efnahagssvæðisins.