Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að svo virðist sem Bretar séu að ráðstafa hluta af eignum gamla Landsbankans án vitundar skilanefndar. Hann ætlar að óska eftir skýringum á málinu.
Ráðherrann sagði í viðtali við MBL Sjónvarp í í gær að samningaviðræður við Straum um kaup á hluta af Landsbanka Securities væru órar en fjölmiðlar höfðu þá greint frá slíkum viðræðum. Fréttir um að Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Straums, væri í viðræðum um að kaupa hluta eigna gamla Landsbankans í Bretlandi voru á skjön við yfirlýsingar ráðherrans sem hét á íslenska auðmenn að snúa heim og hjálpa íslensku þjóðinni. Björgvin sagði ennfremur að formaður skilanefndar Landsbankans hefði sagt sér að slíkt væri ekki í farvatninu.
Á sama tíma og viðtalið fór fram kom tilkynning um kaup Straums á hluta eigna verðbréfafyrirtækisins Teathers, sem hét áður Landsbanki Securities.
Teathers er í greiðslustöðvun en kaupin snúa að vörumerki og tilteknum eignum. Í tilkynningu Straums segir stefnt að því að ráða áttatíu starfsmenn en fyrirtækið verður rekið undir eigin merkjum sem útibú Straums í London. Í morgun sagði Björgvin G. Sigurðsson að svo virtist sem þetta hefði verið gert af KPMG í London án vitundar hans og skilanefndar bankans. Þeir hefðu fyrst fengið upplýsingar um málið í dag. Hann segir greinilegt að Bretar telji sig geta ráðstafað þessum eignum en hann setji stórt spurningamerki við það og ætli að óska eftir skýringum.
Skýringin er hins vegar sú, samkvæmt síðari upplýsingum frá viðskiptaráðuneytinu, að ekki er um útibú Landsbankans að ræða, heldur breskt dótturfélag, sem hefur lögsögu þar í landi en ekki á Íslandi. Það fellur því undir umsjón og eftirlit þarlendra yfirvalda.
Straumur hafði samið um kaup á þremur dótturfélögum Landsbankans áður en bankinn fór undir Fjármálaeftirlitið en eitt af þessum félögum var Landsbanki Securities sem áður var starfrækt undir merkjum Teathers & Greenwood og Bridgewell. Samningnum var rift tíu dögum síðar. Á heimasíðu greiningardeildar Kaupþings segir, að riftunin hafi verið jákvæð fyrir Straum þar sem verðið hafi verið nokkuð hátt en ekkert sé gefið upp um kaupverðið á vörumerki Teathers að þessu sinni.